19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla ekki að svara háttv. þm. Dala. (B. J.) orði til orðs, enda er það einskis manns meðfæri að eltast við öll slagorð og þóttafull digurmæli þess þingmanns, sem best þykist hafa vit á öllu, en ber skynbragð á fæst það, sem hann fer með. Það var við engu góðu að búast frá þessum háttv. þingmanni, enda fór hann með öfugmæli ein. Hefði jeg sagt, að jeg væri á móti því, að þessi lánsstofnun kæmist á, hefði hv. þm. (B. J.) ef til vill fundið orðum sínum stað. En því var ekki til að dreifa. Jeg vildi aðeins fresta málinu, til þess að það fengi frekari undirbúning. Og jeg álít, að slíkt stórmál verðskuldi það fyllilega.

Háttv. þm. (B. J.) talaði um, að stjórnin legði málin oftast óbreytt fyrir næsta þing, og sæti á þeim til einskis gagns. Þetta er ekki rjett og sannar ekkert. Ef stjórnin leggur þetta frv. fram aftur óbreytt, þá er það mjer sönnun þess, að frv. sje bygt á góðum rökum, og þá er jeg fúsari til að greiða því fullnaðaratkvæði mitt en ella. Munnskálp háttv. þm. í þessu efni sannar því ekkert frekar en annað, sem hann bar fram.

Þá sagði háttv. þm. (B. J.), að jeg væri lítill vinur atvinnuveganna og stæði illa á verði um fjárhag landsins. Enginn sanngjarn maður hefði skilið orð mín svo, en háttv. þingmanni var vel trúandi til þess. En ef hann hefði ráðið fjármálum þessa lands, þá er jeg viss um, að ekki væru einungis allir þeir sjóðir, sem hjer um ræðir, upp etnir, heldur einnig ríkissjóður og lánstraust landsins steindrepið. Sú hefir fjármálastefna hans verið, frá því fyrst er hann skreið hjer inn á þingið. Hann hefir ekkert gert annað, sem í frásögur er færandi, en að snapa bitlinga handa sjer og vinum sínum og vandamönnum. Hann hefir skimað í allar áttir eftir molum, sem kynnu að hrjóta í eyðslusvelg hans. Svoleiðis peyjum ferst ekki að lasta þá menn, sem vilja varna því, að fje landsins sje sóað í vitleysu og gegndarleysi. Það er nauðsynlegt að vera fastheldinn á fje gagnvart háttv. þingmanni, því fljótt sæi í botninn á skúffunni, ef hann mætti ráða.

Jeg endurtek það, að jeg stend hvorki blár nje bleikur fyrir till. mínar í þessu máli, en háttv. þm. Dalla. (B. J.) mundi blygðast sín fyrir fjármálastefnu sína, ef sú list væri honum ekki löngu týnd, að kunna að skammast sín.

Jeg get verið stuttorður gagnvart hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hann þóttist heyra það á ræðu minni, að jeg skildi ekkert í málinu. En nokkuð svipað get jeg sagt um ræður hans í þessu máli. Jeg skal játa það, að jeg er ekki bankafróður maður, en jeg er ekki heldur neinn ákafamaður, sem reyni að stofna 3 ný embætti við peningalausan banka, þó að hann sje látinn heita Ríkisveðbanki Íslands.

Jeg sagði ekki, að brjefin mundu alls ekki seljast, en jeg benti á reynsluna í þessu efni. Veðdeildarbrjef 4. veðdeildar eru óseld fyrir 4 milj. kr., og er því nægur tími til stefnu enn að stofna til nýrrar brjefaútgáfu.

Fjárhagur landsins getur farið svo, ef illa er á haldið, að lánstraustið þverri, og vissasta ráðið er að fara eftir till. háttv. þm. Dala. (B. J.) og eyða meiru en aflað er. En það er eðlilegt, að sá háttv. þingmaður vilji setja landið á höfuðið, setja það á sveitina. Hann metur yfirleitt sveitarlimi meira en aðra menn, og vill veita þeim allskonar fríðindi. Það er því engin furða, þótt hann sje ánægður með fjáraustursstefnu sína, því að hann telur eyðsluseggi og óhófsmenn kjarna þjóðarinnar, og metur íslensku þjóðina því mest, ef hún glatar fjárhagslegu sjálfstæði sínu. En jeg held að það sje ekkert ódæðisverk, þótt reynt sje að sporna við þeirri fjármálastefnu.

Ekki veit jeg hvernig háttv. þingmanni verður við, er hann þarf að biðja Dani eða aðra hjálpar, eftir að hann hefir komið fjárhag landsins í kaldakol, en þess mætti geta til, að fullveldisgorgeir hans yrði þá ekki eins hávær og hann er stundum hjer í deildinni.

Jeg ætla ekki að lesa háttv. þm. lengri lestur í þetta skifti, en þó á jeg eftir að taka til bænar mikið af hjegómabulli hans og gífuryrðum. Jeg hafði hugsað mjer að láta þetta bíða betri tíma, en háttv. þingmaður hefir knúð það fram með slagorðum sínum og ósvífnum dylgjum í minn garð. En jeg get látið hann vita, að hann getur átt von á ósviknum eldhúsdegi, ef hann hefir ekki hægt um sig framvegis, þó jeg í lengstu lög vilji hlífast við því.