19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg vil benda á það, að það getur ekki náð til mín, sem hæstv. forseti (B. Sv.) sagði. Jeg talaði aðeins um rökstuddu dagskrána, en jeg varð að koma við þau rök, er hv. flm. (S. St.) flutti fyrir henni, og meðal þeirra voru þau, að öll veðurmerki væru til þess, að ílandið þyrfti að taka til þessara sjóða, og því væri óvarlegt að festa þá. Og þótt hv. flm. (S. St.) hafi þar fengið tækifæri til að halda dálítinn ræðustúf um mig persónulega, brigslað mjer um fjárdrátt og fólskuverk, þá er jeg svo vanur að heyra slíkt frá smámennum hjer og annarsstaðar, að jeg kippi mjer ekki upp við það. En svo vjek hann að fjármálastefnu minni, og kvað landið munu komast á húsganginn og verða að fleyta fram lífinu á bónbjörgum, ef minni stefnu væri fylgt. Jeg hefi nú þegar fyrir ári síðan ráðið stjórninni að taka gjaldeyrislán. Og það hefir þegar sýnt sig, að það mundi betur hafa borgað sig en svíðingsháttur sá, er kemur fram í því að vilja klípa og narta utan af öllum fjárveitingum, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þykir giftudrjúgast. Hann er nú reyndar flúinn úr salnum, svo hann heyrir ekki mál mitt; líklega hefir hann búist við því, að jeg mundi taka mildari tökum á honum, ef jeg sæi ekki framan í hann.

Hjer er um tvær andstæðar stefnur að ræða. Önnur þeirra ber öll merki og einkenni svíðingsháttarins og smámunaseminnar. Þeirri stefnu fylgir háttv. þm. N.- Ísf. (S. St.). Mín stefna er aftur á móti sú, að fara með viti og fyrirhyggju með fjármál landsins, hafa augu á hverjum fingri, sjá ekki eftir smáupphæðum, en þekkja þann rjetta tíma, þegar stórútgjöld eru til þjóðþrifa. Jeg vil ekki að Sandið sje neinn grútarháleistur með fjárveitingar til ungra manna, skálda og listamanna o. s. frv., sem hafa fórnað sjer, svo að landið fari ekki á mis við alla fíngerðari og háleitari þætti menningarinnar. Þessir menn hafa allir fórnað sjer, því að þeir helga sig alla því starfi, sem þeir vita að þeir geta aldrei lifað af. Þetta eru þessir svo kölluðu bitlingamenn. Að styrkja þessa menn er kallaður óhæfilegur fjáraustur af þeim hermikrákum, sem geta aldrei lagt neitt til frá sjálfum sjer, en eru í sífellu að tyggja upp sparnaðarreglur annara. Þessir aumingja bjálfar, eins og þm. N.-Ísf. (S. St.). geta hermt eftir Magnúsi Stephensen, stagast í sífellu á sparnaðarreglum hans, en hafa ekki vit hans á að nota þær. Það er svíðingshátturinn, sem gæti komið landinu á kaldan klakann, og það er fólskuverk að hrópa út um allan heim, að nú sje fjárhag landsins svo komið, að íslensk verðbrjef verði ekki seld. Þetta eru fávíslegar aðfarir, líklega ekki gerðar af neinni illmensku, en ef nokkur tæki mark á slíkum ummælum, þá er það víst, að það gæti mjög spilt fjárhag landsins og veikt traustið á því.

Jeg hygg, að ástæður þær, sem færðar hafa verið fyrir þessari rökstuddu dagskrá, reynist ekki svo veigamiklar, þegar til atkvæða á að ganga. Þetta mál, þ. e. fasteignaveðbanki, hefir verið til umræðu síðan jeg kom á þing árið 1909; það hefir legið fyrir og verið rætt þing eftir þing, hver stjórnin á fætur annari hefir starfað að undirbúningi málsins, og þessi banki ávalt verið talinn einhver sú mesta nytjastofnun, sem ráðist væri í að koma upp. Það hefir verið tekið fram, eins og auðvitað er, að ekki getur komið til mála að koma upp sjerstakri stofnun fyrir landbúnaðinn. Slík stofnun mundi verða altof lítil, og auk þess að mun dýrari allur rekstur hennar, þegar við hlið hennar kæmi önnur stofnun fyrir bæjarbúa og þá, er stunda aðra atvinnu en landbúnað. En það var háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem á síðasta þingi, líklega af vangá, hjelt því fram, að þessi stofnun ætti eingöngu að vera fyrir landbúnaðinn. En það eru líka Íslendingar og líka menn, sem búa í bæjunum, og það verður ekki hjá því komist að taka tillit til þeirra. Og þegar allar þeirra þarfir koma saman, þá er það ekki nema sjálfsagt. Háttv. þingmaður hefir alls ekki kynt sjer þetta mál, en rökstudda dagskráin er fram komin, svo að honum vinnist tími til að athuga þetta mál fyrir næsta þing.