04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

128. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (J.S.) tók það nú fram, sem jeg hafði bent á við 1. umr. málsins, um það, sem ósanngjarnt væri í stefnu þessa frv. Það var líka síður en svo, að fjárhagsnefnd væri henni hlynt í sjálfu sjer, þó hún hafi ekki sjeð sjer fært að leggjast á móti frv., vegna knýjandi tekjuþarfar ríkisins. En það er alveg rjett, að það er hart að þurfa að skattleggja framleiðsluna, ekki síst nú, einkum þar sem komið getur fram misrjetti milli hjeraðanna, eins og hjer getur orðið. En viðvíkjandi því, sem háttv. þm. (J. S.) sagði um það, að hækka heldur tekju- og eignarskattinn í staðinn, vil jeg taka það fram, að bæði þyrfti hækkun hans að vera alltilfinnanleg, og svo er þessi skattur í rauninni svo í þoku, að alveg er óvíst, hvað hann kann að gefa af sjer. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til þess að fara út í frumvarpsgreinarnar sjálfar.