17.05.1921
Efri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

128. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Frv. þetta er borið fram eftir beiðni hæstv. fjrh. (M. G.) af fjárhagsnefnd Nd., og gekk fram breytingalaust í háttv. Nd. Eins og tekið er fram í nefndarálitinu á þskj. 606, þá er útflutningsgjald, nema þá mjög lágt, varhugaverður tekjustofn, en nú er viðurkend þörfin á peningum í ríkissjóð, og þykir því rjett að mæla með frv. Það er óhætt að segja, að háttv. Alþingi geri sitt til þess að afla ríkissjóði tekna, og það jafnvel svo, að alt er reytt, sem líkur eru til, að náist. Raunar er þessi tekjustofn ekki nýr, því að jafnhátt útflutningsgjald hefir verið greitt eftir stimpilgjaldslögunum, en var þar sett aðeins til bráðabirgða. En það vill nú oft verða svo, að þó lög sjeu sett til bráðabirgða, þá eru þau oft framlengd, og getur vel svo farið, að eins verði með þessi lög. Eftir áætlun er gert ráð fyrir, að þetta gjald gefi af sjer 250–300 þús. kr. tekjur, og mun það síst of hátt reiknað. En ef frv., sem nú er til einnar umr. í Nd., um útflutningsgjald af síld o. fl., kemst í gegn, þá losnum vjer við gamla útflutningsgjaldið eftir útflutningsgjaldslögunum frá 1881 og 1919. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþ., og telur, að það muni fremur ljetta á þjóðinni frá því, sem nú er, verði bæði þessi umgetnu frv. samþykt, eins og telja má víst.