17.05.1921
Efri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

128. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það mun rjett vera hjá háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.), að þessi skoðun hafi komið fram hjá honum í nefndinni, en mjer fjellu víst svo orð, að nefndin hefði hjer verið öll sammála, en það mun þó óhætt að segja, að hinir allir hafi haft þá skoðun. Það eru nú nokkuð skiftar skoðanir um það, hversu útflutningsgjald er heppilegt, þó það sje að vísu kostur, að það er gott að heimta það inn, eins og þm. (B. K.) tók fram. En yfirleitt mun það vera skoðun þjóðarinnar, að óheppilegt sje að skatta framleiðslu, en eins og nú stendur á, verður að afla ríkissjóði tekna þar, sem hægt er, og verður þó ekki auðið að ganga viðunanlega frá fjárlögunum.