18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

140. mál, afsals og veðmálabækur Mýra og Borgarfjarðarsýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir gert grein fyrir nauðsyn þessa frv. Það er að nokkru leyti borið fram fyrir hönd stjórnarinnar. Það er auðsætt, að einhver slík ráðstöfun er óhjákvæmileg. Það getur verið athugavert við þetta frv., að það hefir rjettindamissi í för með sjer fyrir einstaka menn; nýleg skuldabrjef geta jafnvel orðið ónýt eftir þessum lögum. Það hefir ekki þótt athugavert að gefa út lög, sem ónýta gömul skuldabrjef, en það má segja, að það sje nýmæli að gera svo að segja alveg ný veðskjöl rjettminni eða jafnvel rjettlaus. En þó verður ekki sagt, að þetta komi í bága við eignarrjettarákvæði stjórnarskrárinnar. Jeg hefi borið þetta undir lögfræðing, sem jeg hefi mikið álit á, og leit hann eins á það mál. Kröfurnar ónýtast heldur ekki, þó að veðið ónýtist, en þær geta orðið að þoka fyrir öðrum kröfum. Jeg held, að ekki verði hjá því komist að setja slík ákvæði, því ef það væri ekki gert, mundu fasteignir verða mörgum erfið eign; þeir gætu hvorki selt þær eða veðsett.

Jeg vona, að deildin leyfi málinu að ganga svo fljótt, að hægt verði að afgreiða það sem lög frá þessu þingi.