25.04.1921
Efri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Forseti (G. B.):

Áður en vjer göngum til dagskrár vil jeg vekja athygli háttv. fundarmanna á frv. til laga um seðlaútgáfu Íslandsbanka, hlutafjárauka o. fl., sem útbýtt hefir verið á þessum fundi.

Hjer er að ræða um eitt hið mesta og brýnasta nauðsynjamál þjóðarinnar, mál, sem ekki þolir bið, en hefir þegar beðið of lengi. Tíminn líður; þetta er 25. apríldagur, og enn hefir ekkert verið gert, engu til lykta ráðið um þessa þjóðarnauðsyn. Það er af þessum ástæðum, að jeg hefi leitað og fengið samþykki hæstv. stjórnar til þeirra afbrigða frá þingsköpum, að mega halda annan fund á eftir þessum og hafa þá á dagskrá: Frv. til laga um seðlaútgáfu Íslandsbanka, hlutafjárauka o. fl. (þskj. 379) til 1. umr.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning í minn garð, þá verð jeg að taka það fram, að jeg er ekki algerlega samþykkur þessu frv., heldur þvert á móti í ýmsum meginatriðum mótfallinn því. En alt stendur til bóta, og málið þolir ekki bið. Öll þjóðin stendur á öndinni af eftirvæntingu, og þingið verður að gera eitthvað.

Fari svo, að hæstv. deild samþykki þessi afbrigði frá þingsköpum, þá mun jeg að sjálfsögðu láta líða tvær nætur milli 1. og 2. umr., eins og lög standa til. Að svo mæltu vil jeg bera undir háttv. fundarmenn, hvort þeir vilja veita þá undanþágu frá þingsköpum, að frv. til laga um seðlaútgáfu Íslandsbanka, hlutafjárauka o. fl. verði tekið til 1. umr. á fundi, sem settur verði kl. 3%.