27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Flm. (Einar Árnason):

Þótt það geti legið beint við, um leið og gerð er grein fyrir frv. því, sem hjer liggur fyrir, að fara almennum orðum um það fjárhagsástand, sem nú ríkir hjer og liggur bak við þær till., sem felast í frv. þá geri jeg það ekki að svo komnu máli. — En öllum hlýtur að vera ljóst, hve náið samband er milli afkomu þjóðarinnar og þeirrar aðalpeningastofnunar, sem frv. fjallar um.

Fjárhagsástandið er svo þrautrætt, bæði innan þings og utan, og öllum háttv. þdm. svo ljóst, að óþarfi er að fjölyrða um það. Það hafa fallið ýmislegir dómar um það, hver sje hin eiginlega orsök þeirrar fjárhagskreppu, sem þjóðin nú er stödd í. Jeg tel það ekki mitt hlutverk hjer að kasta sök á neina einstaka menn fyrir það, að svo er komið ástandinu. Það verður að vera aðalatriðið, að finna einhverjar leiðir út úr vandræðunum, og um leið að reyna að fyrirbyggja, að slíkt komi fyrir aftur í framtíðinni. Og það er álit okkar flm. að frv. stefni í áttina til þess.

Það var stutt liðið á þingtímann, er báðar deildir kusu hvor sína nefnd, til að íhuga peningamál og þar með bankamál landsins. Hafa báðar nefndirnar unnið saman og meðal annars fjallað um frv. stjórnarinnar um seðlaútgáfurjett. Þessi samvinnunefnd hefir haft málið ærið lengi með höndum, og má vísa til nál. þess, sem fram er komið frá meiri hl. nefndarinnar um ástæðurnar til þessa.

Sjerstaklega finn jeg ástæðu til að gera grein fyrir því, að jeg hefi ritað undir það nál. — að vísu með fyrirvara — en er þó einn af flm. þessa frv.

Að því er mig snertir, þá ber lítið annað á milli en í hvaða formi málið eigi að leggjast fyrir þingið.

Um kjarna málsins er jeg algerlega sammála meiri hl. samvinnunefndar. Kjarni málsins er sá í mínum augum, að Íslendingar fái nú í sínar hendur fullan íhlutunarrjett um stjórn aðalbanka landsins, með þeirri aðstöðubreytingu, sem það hefir í för með sjer.

Meðnefndarmenn mínir hafa kosið þá aðferð að koma fyrst fram með tillögu um framlenging seðlaútgáfurjettarins, og síðan búast þeir við að koma fram með till. um það. á hvern hátt rjettur ríkisvaldsins yfir bankanum yrði trygður. Jeg hefi talið rjettast, að hvorttveggja fylgist að. Það er því ekki um andstöðu að ræða af minni hálfu gegn þeim till., sem meðnefndarmenn mínir í háttv. Nd. kunna að bera fram um það, sem jeg tel þungamiðju frv. Það er aðeins formsatriði, sem skilur.

En það tel jeg mikilsvert atriði, að reynt sje til að vinna í bróðerni að úrslitum þessa mikilvæga vandamáls. Og jeg geri ráð fyrir, að við flm. þessa frv. munum taka til athugunar þær brtt., sem fram kynnu að koma, ef þær ekki raska grundvelli málsins

Skal jeg svo í sem stystu máli víkja að aðalatriðum frv.

Fjórar fyrstu greinar frv. kveða á um skipulag seðlaútgáfurjettarins: Hversu mikið skuli leyft af þeim, hvernig þá skuli draga inn, um tryggingar seðla og gjald það, sem bankinn greiði í ríkissjóð.

Jeg vil taka það fram, að frá mínu sjónarmiði er þessi kafli frv. ekkert aðalatriði. Jeg lít svo á, að þar sem aðalmarkmiðið, sem á að nást með frv., er það, að Íslendingar fái fullan íhlutunarrjett um stjórn bankans og rekstur, þá væri ekki þörf á því nú að kveða á um framtíðarskipulag seðlaútgáfunnar, því það hafi ríkisvaldið þá hvort eð er í hendi sjer.

Jeg vil því leggja áherslu á þá skoðun mína, að ef þetta frv. verður samþykt, þá sje það á valdi Alþingis að ákveða, hvernig seðlaútgáfunni verði hagað. Og jeg geng út frá því sem sjálfsögðu, að næsta þing ráðstafi seðlaútgáfurjettinum til Landsbankans. Jeg mun því, hvað mig snertir, þrátt fyrir það, að jeg ljet ekki þetta seðlaskipulag, sem frv. gerir ráð fyrir, standa í vegi fyrir samkomulagi við háttv. samflutningsmenn mína, vera fús á að taka til greina brtt., sem fram kynnu að koma í þá átt að skipa seðlaútgáfunni til bráðabirgða.

Í 5. gr. frv. er komið að aðalkjarna málsins. Er hann sá, eins og jeg hefi þegar tekið fram og vikið er að í greinargerð frv., að með því að ríkið keypti svo marga hluti, sem þyrfti til þess, að það yrði aðalráðandinn á hluthafafundinum, þá trygði það sjer full tök á því, hvernig því fje verður varið, sem það leggur fram eða ábyrgist. Með öðrum orðum, stjórn bankans færist yfir í íslenskar hendur.

Þessi hugmynd, að koma Íslandsbanka undir íslensk yfirráð, er annars ekki ný. Á Alþingi 1907 var samþ. í Nd. frv. um að kaupa hlutabrjef í Íslandsbanka, alt að tveim milj. kr. Var það auðsjáanlega tilgangurinn að koma bankanum undir íslenska stjórn. Málið hafði mikinn byr í Nd. En því miður eyddist málið í Ed. Var því vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá og eins atkvæðis mun. Málið fjell þá, því miður, niður í höndum stjórnarinnar. Jeg segi því miður, því það er ekki óhugsandi, að ef þessi stefna hefði þá komist í framkvæmd, þá hefðu okkar fjárhagslegu ástæður verið betri nú.

Nú er það aftur orðið að dagskrármáli að Íslandsbanki komist undir íslenska stjórn.

Þeir munu vera fjölmargir, sem eru þeirrar skoðunar, að það, að Íslandsbanki komist undir íslensk yfirráð, sje eitt af því allra fyrsta, sem gera þarf, til þess að losa landið úr yfirstandandi vandræðum. Það mun meira að segja ekki ofmælt, að það sje þjóðarvilji, að Íslandsbanki sje sem mest gerður að innlendri eign, undir innlendri yfirstjórn.

Til þess að þetta geti orðið, verður vitanlega að stofna til samninga af ríkisins hálfu við núverandi hluthafa bankans. Þetta getur orðið með tvennu móti. Annaðhvort með því, að landið kaupi svo mikið af hinum gömlu hlutabrjefum bankans, að það fari með meiri hluta atkvæða, eða að Íslandsbanka sje gert að auka hlutafje sitt um alt að 100%, og ríkið kaupi svo mikið af þessum nýju hlutabrjefum, að yfirráð þess sjeu trygð. í greinargerð frv. er vikið að báðum þessum leiðum. Og þó frv. geri aðallega ráð fyrir því, að yfirráðin sjeu trygð með nýjum hlutum, þá er að sjálfsögðu opin leið til þess að kaupa gömlu hlutina að einhverjum hluta, náist viðunandi samkomulag um það. Má í þessu sambandi vísa til ummæla meiri hluta samvinnunefndar í peningamálunum.

Orðalag 5. gr., að Íslandsbanki skuli „auka hlutafje sitt um alt að 100% á þann hátt, að ríkissjóður leggur fram hlutafjáraukann“ á því að miðast við það, að yfirráð ríkissjóðs verði trygð. Og fyr en sú vissa er fengin, kemur vitanlega ekki til mála að leggja fram fje af hálfu ríkisins.

Þess vil jeg einnig geta, út af orðalagi 5. gr., „þegar hann (ríkissjóður) sjer sjer fært“, þá er með því átt við, að þetta fari fram þegar á þessu sumri. En til þess, að svo megi verða, þarf að tryggja tvent. Fyrst og fremst það, að það lán fáist, sem þarf til þess að gera bankann starfhæfan, og í öðru lagi þarf að ganga úr skugga um það, hvernig hagur bankans er þá, því vitanlega er ekki tilætlunin að leggja fje í bankann, nema að alt sýnist fullkomlega trygt. Ákvæði 6. gr., um 2 þingkosna eftirlitsmenn með bankanum, standa í beinu sambandi við aðaltilgang frv., að ná honum undir íslensk yfirráð. Þykir sjálfsagt, að ríkið láti þegar rækja slíkt eftirlit, þar sem það ætlar að taka við stjórn bankans. Um hitt, að þetta verði framtíðarskipulag við bankann, er líkt að segja frá mínu sjónarmiði og um skipun seðlaútgáfurjettarins. Þegar landið hefir náð yfirráðum yfir bankanum, hefir það í hendi sinni, hverja skipun það gerir í þessu sem öðru.

Jeg skal að lokum taka það fram, að frumvarp þetta er fram komið sem samkomulagsgrundvöllur um þetta mikla vandamál. Grundvöllur, sem í aðaldráttunum markar þá stefnu, sem vjer hyggjum vera rjettasta. En þess ber að gæta, að framkvæmd málsins á þeim grundvelli, er þingið leggur til, er stórum þýðingarmikil. Þá framkvæmd á þingið fyrst og fremst undir stjórninni. Þess vegna er það ekki lítilsvert, að hún haldi þar fast á vilja þingsins og hagsmunum ríkisins. Og ríkisstjórnin verður að vera sjer þess fullkomlega meðvitandi, að á henni hvílir mikil ábyrgð í þessu mikla fjárhagslega sjálfstæðismáli.