27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg ætla mjer ekki að fara út í þetta frv., sem hjer liggur fyrir, vegna þess, að það er ekki stjórnarfrv. Frv. stjórnarinnar var tekið út af dagskrá í Nd., og bíður eftir frekari framkvæmdum í óákveðinn tíma. En jeg vona, að hæstv. forseti leyfi mjer að svara því, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) vjek að stjórninni.

Hann gat þess, að aðalástæða fyrir fjárkreppunni væri mismunur á því, sem væri flutt inn og út, og er jeg honum þar sammála. Þetta sjest meðal annars á því, að kreppan kemur aðallega fram sem skortur á fje erlendis. Þannig fer þegar verðmæti útfluttu vörunnar nægir ekki til að greiða andvirði þeirrar vöru, sem flutt er inn í landið. En jeg get nú ekki sjeð, að það sje hægt að ásaka stjórnina, þótt afurðirnar falli; það eina, sem hún getur gert, er að greiða fyrir heppilegri sölu. Þessa kreppu er því ekki hægt að færa á reikning stjórnarinnar, og mjer skildist, að hann viðurkendi það.

Hann sagði ennfremur, að kreppan hefði nú staðið í heilt ár, en það er ekki rjett. (S. E.: Nærri heilt ár). Það er heldur ekki rjett. Það er eitt ár síðan, að fyrst fór að bóla á örðugleikum fyrir Íslandsbanka, og það er ekki sama og kreppan. Í nóvember fyrra árs áleit bankinn það sjálfur, að hann mundi losna úr allri kreppu, ef vörurnar seldust. Það, sem olli kreppunni, var, að afurðirnar fjellu, og eru enn að falla. Þegar jeg var í Kaupmannahöfn í haust í október og nóvember, átti jeg fund með bankastjórum beggja bankanna, og álitu þeir, að þeir yrðu skuldlausir fyrir nýár. Þetta sýndi sig að vera rjett hjá Landsbankanum, en ekki hjá Íslandsbanka, vegna þess að fiskurinn seldist ekki, og fjell þar að auki í verði.

En jeg sje ekki, að hægt sje að saka stjórnina, þó hún hafi ekki sjeð fyrir óorðna hluti. Enda játaði háttv. þm. (S. E.) það, að ekki væri frekar hægt að sjá þetta fyrir en hækkunina, þegar hún var á ferðinni. Alt kemur þetta manni að óvörum. Hann talaði um, að lánstraustinu væri spilt. Um það skal jeg ekki þræta. En jeg vil benda háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) á það, að það fer ekki vel á því, að þingmenn sjeu að tala um það, að lánstraustið sje á förum, jafnvel þótt satt væri. Föðurlandið á rjett á, að þm. spilli ekki fyrir því. Hins vegar get jeg bent háttv. þingm. (S. E.) á það, að lánstraustið er alls ekki horfið, því að Landsbankinn fekk nýlega 4 milj. kr. lán í Englandi, gegn ábyrgð ríkisins, og hærra lán í Danmörku en nokkru sinni áður. Þess gætti líka í ræðulok hans, er hann talaði um, að hægt mundi vera að fá lán handa Íslandsbanka, að hann teldi lánstraustinu ekki spilt. Jeg neita alls ekki, að viðskiftakreppan hafi ill áhrif, en það eru fleiri þjóðir í svipuðu ástandi, og mikið má vera, ef kreppan stafar ekki að nokkru af því, að sumar viðskiftaþjóðir okkar eiga ilt með að borga, og þar á jeg við Spán og Ítalíu. Og jeg hefi sterkan grun um, að þar sje selt meira af fiski en enn er borgað. Háttv. þm. (S. E.) sagði ennfremur, að við hefðum átt að fara eins að og Danmörk, að taka lán. En hvers vegna gerðu Danir það? Til þess að borga andvirði eigna Þjóðverja í Suður-Jótlandi. Við keyptum enga landshluta eða annað slíkt, og þurftum því ekki lán í sama tilgangi og Danir. Hann vítti það einnig mjög, að engin lán hefðu verið tekin. Jeg benti nú á áðan, að Landsbankinn hefði tekið lán í Englandi og Danmörku, og einnig hefi jeg getið þess í Nd., að Landsbankinn hefði fengið allstórt viðskiftalán í Ameríku. Þm, (S. E.) viðurkendi, að ekki ætti að taka lán til eyðslu, heldur til framkvæmda. Hvaða framkvæmdir voru það í haust, sem taka átti lán til? Jeg býst við, að hann svari: „Til að kaupa Íslandsbanka“. Það hefði engin haft á móti því, ef hefði átt að gera það. En hver vissi um, að þingið vildi kaupa hluti í bankanum, og hvar var heimild til þess? Ekki gat hann búist við, að stjórnin tæki lán til að lána út aftur Pjetri eða Páli. Slíkt mundi jeg ekki vilja gera upp á mína ábyrgð. Stjórnin hefði tekið lán handa Landsbankanum, ef hann hefði þurft þess með. Íslandsbanki lýsti því yfir, að hann þyrfti ekki lán um áramót, en stutt var frá áramótum til þings. Jeg býst við, að þm. hefði reist sig hátt, ef stjórnin hefði farið að taka lán og troðið því upp á Íslandsbanka, án þess að hann hefði að nokkru leyti farið þess á leit.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði ennfremur, að það þyrfti stjórn, sem setti það á oddinn, að fjárlögin yrðu ekki afgreidd með margra miljóna tekjuhalla, en hann tryði ekki núverandi stjórn til slíkrar karlmensku. Það undrar mig ekki, þótt hann treysti ekki núverandi stjórn til þessa, því að þá þyrfti hann að trúa henni til meiri karlmensku en sjálfum sjer, því ekki þorði hann að setja slíkt á oddinn, meðan hann var ráðherra, en varð að láta sjer lynda, að fjárlögin væru afgreidd með miklum tekjuhalla. Annars er best að geyma að tala um það, þar til fjárlögin verða afgreidd, með hve miklum tekjuhalla stjórnin lætur sjer lynda að taka við þeim.

Hann sagði, að stjórnarfrumvarpið um bankamálið hefði verið illa undirbúið. En jeg gat ekki skilið hann öðruvísi en hann teldi ýmislegt gott við það, og teldi frv. ólíkt betra en frv. það, sem hjer liggur fyrir, og hefir hann vafalaust rjett fyrir sjer í því.

Hann vefengdi það, að bankastjórar Íslandsbanka hefðu orðið samdóma stjórninni um frv. hennar í aðalatriðunum. Jeg fullyrði, að það sje rjett. En stjórnin hefir ekki leitað samkomulags nema við einn bankastjóra Íslandsbanka, og það er sá bankastjóri, sem mestu ræður um það, hvað samþykt er á hluthafafundunum, en um einn bankastjórann er það kunnugt, að hann vill engu breyta um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. En það er ómögulegt, og dettur engum öðrum í hug að halda því fram, að halda áfram sömu leið og farin hefir verið til enda leyfistímans. Jeg þori því að fullyrða, að útlendi bankastjórinn vill ganga að frv., að undanteknu einu ákvæði. En hitt undrar mig ekki, þótt bankastjórinn hafi látið það í ljós við nefndina, að hann kysi breytingar á stjórnarfrv., því að frv. er ekki eins og hann vildi helst hafa það. Og stjórnin áleit, að ekki bæri að taka eingöngu tillit til þess, hvernig stjórn Íslandsbanka vildi fá frv., heldur miklu fremur, hve langt hún yrði leidd til samkomulags.

Háttv. þm. (S. E.) sagði ennfremur, að Landsbankinn vildi ekki þann seðlaútgáfurjett, sem ráðgerður væri í stjórnarfrv. (S. E.: Jeg vildi óska, að ráðherrann tæki rjett eftir því, sem jeg segi). Hvað sagði þingmaðurinn þá? (S. E.: Jeg skal segja það, þegar jeg tek til máls). Jeg skal þá hlaupa yfir það. því að jeg hefi nóg að segja við háttv. þm.

Háttv. þingmaður sagði, að með frv. væri engin trygging fyrir, að bankinn fengi rekstrarfje. En jeg hefi áður upplýst það, að fyrir því eru eins miklar líkur og mögulegt er að krefjast. Jeg hefi gefið skýrslu um það í peningamálanefndinni, og það hefir ekki verið vefengt. En það verð jeg að segja, að það er hart að heyra háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) finna að þessu, þar sem samskonar ákvæði var í frv. 1919, sem hann var með í að flytja. (S. E.: Jeg var ekki með því frv.). Jú. það var borið fram af allri stjórninni, og háttv. þm. verður að bera sinn hluta ábyrgðarinnar á því, þar sem hann átti þá sæti í stjórninni.

Það hefir verið fundið að því, að stjórnin skyldi ekki koma með frv., sem væri í samræmi við skoðun meiri hl. þingsins.

Frv. stjórnarinnar var lagt fram í Nd. og vísað þar til nefndar, og ennþá, eftir 10 vikna starf, hefir nefndin eigi getað komið sjer saman um neitt frv. Og hvernig átti svo stjórnin að vita um það á síðastliðnu ári, hvað mundi verða ofan á í þinginu? Að heimta að stj. viti fyrirfram um vilja þingsins er og verður fjarstæða. Jeg sagði áðan, að nefndinni hefði gengið erfiðlega að koma sjer saman um nýtt frv.; hún hefir verið klofin, ekki einungis tvíklofin, heldur í mörgum hlutum, og ekki bólar enn á frv. frá nefndinni. Og þó að þessu frv. standi einstöku menn úr peningamálanefndinni, þá er það ekki frá nefndinni samt.

Mig undrar ekki, þótt háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sje trauður í því að leggja núverandi stjórn vald það í hendur í þessu máli, sem ráðgert er í frv. En jeg skal vera þess albúinn að afhenda honum völdin, þegar hann sýnir mjer, að hann hafi meiri hl. þings að baki til að taka þau í sínar hendur; jeg skal ekki halda í þau. En spá mín er sú, að hann verði ekki einungis í andstöðu við núverandi stjórn, heldur og við allar stjórnir, sem hann er ekki í sjálfur.