28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Björn Kristjánsson:

Það var ekki ásetningur minn að fara að halda ræðu við þessa umr., því að jeg vil ekki blanda mjer inn í neinar flokkadeilur.

Jeg ásetti mjer það í byrjun að gera það fyrir þetta mál, sem jeg gæti, án tillits til nokkurra flokka, og það hefi jeg haldið. Jeg vissi, að þótt jeg væri harðorður í garð Íslandsbanka og stjórnarinnar út af þessu ástandi, þá var það með rjettu, en ekki af því að jeg væri á móti sjálfri stjórninni, heldur eingöngu að jeg áleit það vera málinu fyrir bestu, að fundið væri að stjórnleysinu á bankanum, sem hafði svo ilt af sjer leitt.

Jeg tek til máls út af aths. háttv. þm. Snæf. (H. St.). Jeg samdi þetta frv. með háttv. þm. S.-M. (S. H. K.), eins og jeg mundi hafa gert það fyrir sjálfan mig, án tillits til allra flokka, og jeg er ekki flm. þess, eins og háttv. þm. Snæf. (H. St.) og fleiri furðar mjög á, af þeirri einföldu ástæðu, að jeg ákvað það sjálfur. Svo er mál með vexti, að eftir að jeg og háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) höfðum gengið frá frv. eins og við álitum best, þá kom fram tillaga þess efnis, að ríkissjóður gerðist ekki hluthafi að meiru en 3 milj. kr., en jeg neitaði því harðlega, af því að jeg áleit, að þá væri ekki trygging fengin fyrir því, að ríkið ætti nægilega mikið í bankanum til þess að geta haft þar nægilega hönd í bagga með rekstri hans. Þess vegna vildi jeg ekki flytja málið. Síðan vissi jeg ekkert um þetta, fyr en einn þm. hjer í deildinni sýndi mjer próförk af frv. og bauð mjer að vera með, og sá jeg þá, að mótmæli mín höfðu verið tekin til greina. Jeg sagði að jeg kærði mig ekki um að vera flm. — þeir voru þegar orðnir 8 —, en gat þess, að jeg væri því samþykkur eins og áður, úr því að því væri í engu spilt. Þegar málið er þannig komið, þá álít jeg þessa úrlausn málsins heppilegasta fyrir bæði þjóðina og bankann, en jeg ætla mjer ekki að blanda mjer í neinar flokkaþrætur, eins og jeg gat um áðan. Jeg hefi fengið alveg nóg af að hlusta á 7 vikna flokkaþras, þó jeg ekki gefi mig í deilur hjer. Jeg fylgi því frv. eins og áður, sem heppilegustu lausn málsins fyrir alla, en legg lítið upp úr því, þótt jeg sje ekki flm. Jeg legg meira upp úr því, að þingmenn vilja nota undirbúning minn á frumvarpinu, að þeir vilja vinna að framgangi málsins með kostgæfni og alúð.

Eins og sjest á frv., er þrengt að seðlaútgáfurjettinum. en þótt bankanum sje þar markaður þrengri bás, þá verður ekki annað sagt en að seðlaútgáfurjetturinn sje veittur nokkuð rífur, og ætlast jeg til, að bankinn noti ekki þennan rjett, nema eftir því, sem sönn seðlagjaldmiðilsþörf krefur á hinum ýmsu tímum. Jeg held því fram, og set það að skilyrði, svo framarlega sem jeg á að veita frv. þessu lið, að landið taki annaðhvort milj. kr. hlut í bankanum eða alls ekki neitt. Jeg vil ekki, að landið fari að leggja fram fje til bankans, án þess að hafa yfirráðin. Jeg óska því, að þetta verði ofan á, með heill þjóðarinnar fyrir augum.

Menn vita, að jeg er enginn sjerlegur stuðningsmaður stjórnarinnar, svo skoðun mín á þessu máli getur ekki stafað af neinu stjórnarfylgi. Jeg hefi aðeins hag þjóðarinnar í huga. Þess vegna gæti jeg vel, hvað sem þessu máli líður, gefið stjórninni trausts- eða vantraustsyfirlýsingu, hvenær sem vildi.