28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg þarf nú ekki mikið að segja. Mjer leið annars þannig við þennan ljúfa lækjarbununið frá háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að vel getur verið, að eitthvað hafi dottið úr mjer af því, sem hann sagði. Jeg skal aðeins gera að umræðuefni eitt atriði í ræðu hans — jeg held, að ekki sje annað í ræðu hans viðvíkjandi þessu frv., sem máli skiftir —, og það er um skipulag seðlaútgáfu Íslandsbanka.

Hann telur seðlaútgáfunni eins vel eða betur fyrir komið með bráðabirgðaráðstöfun. Jeg hafði þau orð um þetta ákvæði, að það gæti vel orðið bankanum að hengingaról. Jeg gerði líka grein fyrir því, hvernig á þessu stæði, og það var, að lánstraust bankans væri svo hæpið, að hann mætti ekki við því að vera í sífeldri óvissu um það, hvernig seðlaútgáfu hans yrði skipað; eiga það sífelt undir teningskasti þingsins. Það er sú hengingaról, sem jeg talaði um, bjargirnar, sem vel gætu orðið nábjargir, ráðið, sem vel gæti orðið óráð.

Mig langar til, af því þm. hlýtur að meta nokkurs ummæli eins bankastjóra þessa banka, að lesa upp kafla úr viðtali, sem Tofte bankastjóri átti við blað eitt hjer í bænum og hnígur í sömu átt og jeg hefi haldið fram í þessu máli. Það er á þessa leið:

„Frv. í Nd. er eingöngu til bráðabirgða, til eins árs. Nú álít jeg það óhjákvæmilegt skilyrði, að málum bankans sje þannig skipað, að tjaldað sje til meira en einnar nætur, og að eigi þurfi að byrja á nýjan leik þegar á næsta þingi. Til þess að bankinn geti starfað, þarf að komast fast skipulag á seðlaútgáfurjettarmálið. Meðan bankinn á að búa við þá óvissu, sem verið hefir, má teljast ókleift að fá lán erlendis. Síðastliðin ár hafa útgáfuheimildir bankans verið óvissar frá ári til árs, og það eitt út af fyrir sig hefir gert starfsgrundvöll hans slæman. Varanlegt skipulag á seðlaútgáfunni er ómissandi, og hvað það snertir, er frv. til mikilla bóta“.

Jeg held, að þm. hefði gott af að lesa þetta. (S. E.: Jeg hefi lesið það). Það er ekki nóg, að þingmaðurinn hafi lesið það, ef hann hefir ekki skilið það. Þetta er mergurinn málsins um seðlaútgáfurjettinn, hvort skipa eigi honum til frambúðar eða ekki. Það er það, sem um er deilt. Viðtalið við bankastjórann sannar það, sem jeg sagði í gærdag, og þarf jeg ekki að ræða um það frekar.

Ekki dettur mjer í hug að blanda mjer í deilur þingmannsins og stjórnarinnar. Það er vitanlegt, að hann sjer ávalt flugur, þegar honum dettur stjórnin í hug, og þess vegna koma þessar leiðinlegu og tilefnislausu ræður hans um stjórnina innan um mál, sem verið er að ræða.

Háttv. þm. (S. E.) sagði í gærdag við einn þingmann, sem ekki var á sama máli og hann, að sælir væru einfaldir. Jeg trúi því vel, að þeir einföldu sjeu sælir. En af því gæti kannske leitt það, að hinir tvöföldu væni vansælir. Jeg held, að þingmaðurinn sje tvöfaldur í þessu máli. Hann kvaðst vilja gera alt, sem unt væri, til að koma bankanum á rjettan kjöl, en mælti þó gegn þeim ákvæðum frv., sem helst koma honum að liði. Og því get jeg vel trúað því um háttv. þingmann, að hann sje vansæll í þessu máli.