06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Björn Kristjánsson:

í framhaldi af því, sem jeg sagði í þessu máli við 1. umræðu, og með sjerstöku tilliti til brtt. á þskj. 451, laugar mig að segja fáein orð, sjerstaklega um aðalágreiningsefnið í þessu máli.

Eitt aðalatriði skiftir flokkum í þessu máli:

1. hvort framlengja eigi seðlaútgáfuna í eitt ár, eða

2. hvort framlengja eigi hana fyrir allan tímann, sem eftir er af seðlaútgáfutímabilinu.

Ef alt væri með feldu, að Íslandsbanki starfaði með sama lánstraustinu og áður og engin opinber eða leynileg tilraun hefði verið gerð af fáum ábyrgðarlausum mönnum utan þings til þess að koma bankanum fyrir kattarnef, þá væri vandalaust að skera úr deilunni, því þá stæði hjerumbil á sama, þó framlengingin væri gerð aðeins til eins árs. En nú stendur svo á, að bankinn hefir mist lánstraust sitt í bili, og þessir ábyrgðarlausu utanþingsmenn, er jeg nefndi, hafa leynt og ljóst haft hin óheillaríkustu áhrif á málið.

Áreiðanlega munu hinir erlendu lánardrotnar Íslandsbanka og landsins fá að vita, hvað er að gerast hjer hjá oss. Þeir fá áreiðanlega að vita um þing-„móralinn“ í peningamálunum, og um þá hættu, sem stafað gæti af því að veita seðlaframlenginguna aðeins í eitt ár, eigandi, ef til vill, von á því, að bankinn verði leiddur á höggstokkinn að ári liðnu.

Jeg mundi ekki vilja lána banka, sem þannig væri settur, þó jeg hefði nóg fje, því það er „tekniskt“ ómögulegt fyrir banka að skila af sjer öllum seðlum, er að mun er í umferð, fyrirvaralítið.

Þess vegna er viturlegt að láta bankann skila af sjer seðlunum smám saman á fleiri árum. Þess vegna virðist mjer engin von um, að það gæti orðið bankanum að liði að fá eins árs framlengingu, þegar svona er ástatt, eins og jeg hefi lýst.

Það ættu menn þegar að sjá og vita það eins vel og að tveir og tveir eru fjórir.

Um þetta atriði, sem er aðalágreiningsatriðið, ætti því alls ekki að þurfa að deila.

Og það er, því miður, of lítil trygging fyrir því, að hið minsta lánstraust fáist aftur, þó ríkið leggi fram 41/2 miljón kr. hlutafje. Það mundi mikið hjálpa, ef „privat“-menn vildu leggja það fje fram. En af því að það er ríkið sem á að leggja þetta fje fram, þar sem sá böggull fylgir skammrifi, að bankinn á að setjast undir yfirráð þess þings, sem að nokkru leyti virðist standa undir áhrifum óvina bankans utan þings, — (H. St.: Þetta er ekki sæmilegt). Háttvirtur þingmaður veit, að jeg segi satt, og þá er mjer nóg; — þá má nærri geta, að tilboð ríkisins um hlutafjáraukninguna er ekki sjerlega aðlaðandi í augum erlendra fjármálamanna, ef þá ekki er um leið gengið frá hinu aðalatriðinu, seðlaútgáfunni, svo að bankinn geti losnað undan árlegum flokkspólitiskum áhrifum þingsins.

Tryggingin fyrir viðreisn bankans virðist því aðeins vera sú, að þingið sýni í verkinn, að það vilji styrkja bankann og reisa hann við aftur, en það getur það með því eina móti að leysa bankann nú þegar undan flokkspólitísku áhrifunum, og að semja um leið um seðlaútgáfuna í einu lagi fyrir þann tíma, sem eftir er af leyfistímanum upphaflega, um leið og þingið styrkir bankann með fjárframlagi eða hlutafje.

Annars trúir enginn þinginu fyrir því máli framvegis. Það hefir þá glatað öllu trausti þeirra manna erlendis, sem líklegastir væru til að veita bankanum lánstraust.

Og hvað yrði þá um lánstraust landsins sjálfs?

Þá er hin hliðin.

Vill Íslandsbanki halda áfram rekstri sínum upp á það að fá seðlaframlengingu í eitt ár? Og getur hann með því móti unnið nauðsynlegt gagn? Hvar er tryggingin fyrir því?

Og hafa breytingartillögumenn fullvissað sig um þetta?

Hver á að borga þær yfir 34 milj. króna, sem aðeins heimabankinn á hjá innlendum viðskiftamönnum í lánum og víxlum með stuttum gjaldfresti? Ætla undirróðursmennirnir að taka þá greiðslu að sjer? Landsbankinn getur það ekki, því er margyfirlýst.

Og hvernig fer fyrir þessum mönnum, sem skulda yfir 34 miljónir, og öðrum, sem skulda útbúunum, ef enginn getur borgað fyrir þá?

Ekki er ólíklegt, að bankinn yrði að ganga nokkuð hart eftir skuldum sínum, til þess að geta greitt þær um 16% miljón krónur, sem heimabankinn skuldar innlendum mönnum, fyrir utan það, sem hann skuldar útibúunum og erlendis.

Geta andstæðingar bankans, innan þings og utan. gert glögga grein fyrir, hvernig fer um þessa viðskiftamenn, ef þingið neyðir bankann til að hætta viðskiftunum.

Og loksins vil jeg minnast á eitt atriði enn. Utan nefndar gerði jeg mjer far um að leita upplýsinga um hag bankans.

Eftir því, sem jeg komst næst, verður tap hans — ef honum er nú hjálpað eftir þörfum — hvergi nærri allur varasjóðurinn. Fyrir utan varasjóðinn á bankinn 4% miljón kr. hlutafje. Þrátt fyrir það koma undirróðursmennirnir utan þings og segja, að ekki megi leggja fje í bankann úr ríkissjóði, nema rannsókn fari fram á hag bankans. (S. E.: Eins og fór fram í Landsbankanum um árið?) En slík rannsókn, sem þeir meina, er einhver sú hættulegasta meðferð, sem hægt er að beita við banka, sem er í þröng. Og auðvitað er stungið upp á því af undirróðursmönnum, til þess að gera bankanum sem örðugast fyrir. Það væri beinasti vegurinn til þess að skapa uppþot og ótta almennings. En setjum nú svo, að undirróðursmennirnir hefðu rjett fyrir sjer, að bankinn ætti ekki fyrir skuldum.

Hvað mundi þá ske? Annaðhvort gæti bankinn að lokum ekki innleyst alla seðla sína, eða hann gæti ekki borgað alt sparisjóðsfjeð.

Og hvernig yrði þá farið að? Ríkissjóður yrði að sjálfsögðu að bera hallann, þó ekki væri nema af praktiskum og siðferðilegum ástæðum. Það mundu öll lönd gera, er svo stæði á.

Um innlausn seðlanna hefi jeg haldið hinu sama fram í ritgerð minni „Bankaseðlar“ 1914.

En ef menn nú eiga við það, að nauðsynlegt sje að rannsaka bankann, til þess að ríkissjóður kaupi ekki köttinn í sekknum, er hann kaupir hina nýju hluti, þá virðist svo umbúið í 5. gr. frv., með skipun nefndar þeirrar, sem þar um ræðir, til að ákveða sannvirði hlutabrjefanna, að ekki eigi miklu að skeika. Og ekki mun sú nefnd ákveða verðið athugunarlaust.

Og svo vill svo vel til, að svo er ákveðið í 7. gr., að hinir „kritisku“ endurskoðendur hljóta að taka til starfa, er lög þessi öðlast gildi, og ættu þeir að geta verið búnir að meta, hversu mikið af lánum bankans eru ótrygg, áður en nefndin ákveður verðið á hlutabrjefunum.

Jeg segi þetta ekki til að andmæla athugun stjórnarinnar, sem felst í tillögum háttv. þm. Snæf. (H. St.) og hv. 2. landsk. þm. (S. E ). Sú athugun gerir engum banka mein og getur engu spilt.

Þó samið sje við Íslandsbanka nú um seðlaútgáfnna, þá getur ekki verið um það að ræða, að hann haldi seðlaútgáfurjettinum áfram eftir 1933. Til þess er hann of mikill „spekulationsbanki“ og til þess hefir hann of mikinn sparisjóð.

Alveg er sama máli að gegna um Landsbankann, hann er líka „spekulationsbanki“ nú orðið, og hefir nú miklu stærri sparisjóð en hinn. Af þessum tveimur ástæðum getur hvorugur bankinn verið seðlabanki framvegis, nema með svo mikilli breytingu á fyrirkomulagi þeirra, að þeir alls ekki mundu vilja vinna fyrir að taka á móti seðlunum. Þess vegna verður framtíðarseðlabanki Íslands að vera sjerstakur banki, og gæti hann vel haft veðdeildina í sambandi við sig, eða hinn fyrirhugaða Ríkisveðbanka, báðum til stuðnings.

Seðlabanki má hvorki vera spekulationsbanki nje reka sparisjóðsviðskifti. Og seðlar hans eiga jafnan að vera innleysanlegir með gullmynt. því það dregur úr hættunni, að gefið sje út of mikið af seðlum, eins og gert hefir verið.

Þó er þetta ekki einhlítt, af því menn hafa aldrei lært að biðja um gull í íslenskum seðlabanka. Það er þá aðeins einhlítt, að seðlabankinn sje skyldur til að bjóða fram gull jafnt seðlum, eins og gerist í mörgum löndum. Og það er eina rjetta notknn seðlanna, að láta þá af hendi, er almenningur kýs þá fremur en gull, þægindanna vegna. Ef frv. nær fram að ganga óspilt, geri jeg mjer fylstu vonir um, að brátt greiðist úr fjárkreppunni, en það er aðalatriðið.

En eigi fell jeg samt frá þeirri skoðun minni, að bankinn þurfi að komast undir ábyggilegri stjórn og yfirstjórn en verið hefir. Er það skuld þingsins og stjórnarinnar, ef svo verður eigi, eftir að bankinn er kominn undir innlend yfirráð.