06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Guðmundur Björnson:

Herra forseti! Það er svo ástatt, eins og háttv. þdm. er kunnugt, að jeg hefi átt sæti í bankaráði Íslandsbanka síðan í sumar sem leið. Nú hefir oft verið haft orð á því, að þeir menn, sem Alþingi hefir kosið í þetta bankaráð, hafi starfað lítið þar, og jafnvel hafa nú hjer fallið orð um það, hve lítið þeir láti til sín taka. Jeg hefi nú ekki kvatt mjer hljóðs til þess að bera neitt af mjer um þetta. Þó vil jeg leyfa mjer að segja það, að jeg hefi gert mjer fult far um að kynna mjer alla hagi bankans, bæði út á við og inn á við. Höfum við bankaráðsmenn haldið til þessa marga fundi einir, og líka fundi með bankastjórunum. Okkur er því allvel kunnugt um hag bankans.

Okkur var það ljóst í vetur, að eitthvað þurfti að gera, til þess að koma bankanum á rjettan kjöl aftur. Kom þá þegar til umræðu, og einkum frá bankans hálfu, að skipa þyrfti seðlaútgáfunni endanlega og varanlega. En jeg var þá þegar í vafa um, hvort það væri eina færa leiðin, eða hvort aðrar kynnu að finnast betri. Og síðan smáþroskaðist sú skoðun með mjer, að besta leiðin út úr kreppunni væri sú, að landið yki hlutafje bankans svo, að hann væri um leið gerður að íslenskri stofnun. Þess vegna er jeg þakklátur þeim háttv. átta þm., sem flutt hafa þetta frv., því að það eitt, af þeim þremur frv., sem fram hafa komið, felur í sjer þetta þjóðráð.

Jeg tel skyldu mína að geta þess, að jeg hefi átt tal við þann bankastjórann, sem elstur er, og hefir hann talið, og vafalaust með rjettu, að bankinn hafi orðið fyrir mjög röngum dómum í sumum blöðunum, og jeg verð að segja það, eftir kunnugleika mínum tel jeg það öldungis víst, að bankinn eigi vel fyrir öllum skuldum, sje „solvent“, sem svo er nefnt.

Þegar jeg minnist á hlutafjárkaupin, þá eru einkum tvö atriði, sem jeg vildi ræða um. Annað er það, að sumir hafa borið brigður á, hvort unt mundi að útvega svo mikið fje, sem til þess þarf, en það eru 41/2–5 milj. kr. Um þetta vil jeg geta þess, að jeg hefi átt tal við hæstvirta landsstjórn, og samkvæmt því viðtali tel jeg alveg óhætt að treysta þeirri stjórn, sem nú situr, til að útvega fjeð.

Annað er það, að nokkrir hafa dregið í efa, að hluthafar mundu ganga að hlutakaupum ríkisins. Jeg verð nú að leyfa mjer að telja þetta hreinustu fjarstæðu. Til þess að sjá það þurfa menn hvorki að vera kaupmenn nje bankafróðir. Það liggur í augum uppi, að þegar gömlu hlutafjelagi, sem ekki er þá því betur statt, er boðin slík þátttaka, þá er það sú besta traustsyfirlýsing, sem fyrirtækið getur fengið. Þetta veldur því, að gömlu hlutirnir hljóta að stíga í verði. Jeg er því viss um, að hluthafarnir hljóta að taka þessu tilboði með gleði. Það er þeirra hagur líka, og svo er jafnan, þegar ný hluttaka er boðin fram í gömlum fjelögum, þá er meira að segja oft svo erlendis, að nýju hluthafarnir fá nokkuð af gömlu brjefunum ókeypis. Svo mikilsverð er hin nýja hluttaka talin. Þetta vita efalaust ýmsir háttv. þdm., þótt enginn hafi minst á það.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að sagt hefir verið, að hlutabrjef Íslandsbanka væru nú boðin úti í Kaupmannahöfn fyrir 70 af hundraði. Nú hefi jeg fengið áreiðanlega vissu fyrir því, að þetta er aðeins örlítið hrafl af brjefum, sem boðin eru fram. Langmestur hluti brjefanna liggur óhreyfður, og brjefin eru víst alls ekki föl fyrir minna en „pari“. Og jeg efast mjög um, að þau sjeu föl hjá sumum, þótt jafnvirði sje í boði.

Þá er hitt meginatriði frv. Það er skipun seðlaútgáfunnar. Jeg verð að segja það, að mjer virðist mjög vandasamt verk að ganga frá því til langs tíma, eða svo, að til frambúðar megi verða. Virðist mjer allmikil tvísýna á, að það megi takast á þessu þingi, þar sem nú er orðið svo áliðið þingtímans. Og jeg er sannfærður um, að bankinn kemst á rjettan kjöl aftur, ef hlutakaupin takast, og þess vegna tel jeg óhætt að láta hitt bíða. Það er engin ástæða fyrir bankann að tortryggja þing nje stjórn.

Hvað hefi jeg fyrir mjer í því? Jeg hefi það fyrir mjer, að bankinn hefir nú ár eftir ár orðið að leita til þings og stjórnar um aukna seðlaútgáfu, og hefir honum aldrei verið neitað. Og honum hefir ekki verið neitað um þetta, því að það hefði verið sama og að gera þjóðinni tjón. Þess vegna hefir Íslandsbanki enga ástæðu til að rengja þing og stjórn í þessu efni, og það því síður hjer eftir, ef hlutakaupin takast.

Þá minnist jeg og í þessu sambandi orða háttv. sessunautar míns (B. K.) um það, hvað ætti að verða um seðlaútgáfuna, þegar Íslandsbanki fer að draga inn seðla sína. Hann efast um það, og jeg líka, að seðlaútgáfan væri betur komin í höndum þeirra banka, sem nú eru, annars eða beggja, heldur en í höndum landsins sjálfs. Væri þá ef til vill besta úrræðið að stofna sjerstakan banka, til þess að fara með seðlaútgáfuna.

Jeg bið hina háttv. átta flm. frv. að virða mjer til vorkunnar, þótt jeg sjái þessi vandkvæði á að skipa seðlaútgáfunni til frambúðar nú þegar. Mun jeg því naumast greiða atkv. með frv. óbreyttu, enda er jeg sannfærður um það, að bankanum er það enginn hnekkir, þótt seðlaútgáfunni sje óskipað til næsta þings, ef hlutafjárkaupin takast.

Þá er enn ein hlið þessa máls, sem jeg vildi minnast á. Það er pólitíska hliðin. Það er nú enginn leyndardómur, að Landsbankinn hefir alla tíð legið undir því ámæli, að hann væri pólitískur banki. Og því verður ekki neitað, að svo hafi sýnst. Því segi jeg: Vörum okkur, ef hjer kemur annar ríkisbanki, að hann verði ekki líka pólitísk stofnun. Þar sje jeg hættu, og fyrir því vildi jeg vekja máls á einu atriði, sem aðrir hafa ekki minst á, og það er, hvort ekki væri rjett að selja aftur síðar hlutabrjef ríkisins í Íslandsbanka. Auðvitað mætti aðeins selja þau íslenskum mönnum og með tryggingu fyrir því, að þau gengju ekki út úr landinu, líkt og er um Eimskipafjelag Íslands. Gæti jafnvel komið til mála að gera Landsbankann líka að hlutabanka. Það eitt hygg jeg mundu geta losað bankann undan pólitískum áhrifum.

Við höfum gert of mikið að því að tala um þennan eina banka, en höfum ekki tekið fyrir bankamál landsins öll. Þau eru ekki nærri nógu vel athuguð. Þess vegna hygg jeg langbest að láta það bíða, sem þolir bið, og gera nú enga lokaráðstöfun. Mjer dettur í hug, að best myndi að skipa milliþinganefnd, til þess að rannsaka málið og hafa það tilbúið fyrir næsta Alþingi. En jeg vil ekki láta skipa hana á venjulegan hátt, heldur svo, að Búnaðarfjelagið tilnefni einn mann, útgerðarmenn einn, Kaupmannaráðið einn og Samvinnufjelögin einn, en landsstjórnin skipi einn, sem sje formaður nefndarinnar. Ætti sú nefnd auk þess að hafa heimild til að ráða í sína þjónustu vel æfðan og færan erlendan bankamann. Síðan kæmi hún með tillögur sínar, og hefði þær tilbúnar fyrir næsta þing.