17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jakob Möller*):

Jeg get ekki sjeð annað en að háttv. Ed. hafi skipað seðlaútgáfunni til bráðabirgða, og það gerir frv. líka. En þar er ákveðið, að Íslandsbanki afhendi seðlaútgáfuna í hendur ríkisins fyrir það tímabil, sem eftir er. Þetta fer því ekki langt frá því, sem meiri hl. nefndarinnar hafði hugsað sjer.

Það fer þó betur á því, eins og ætlast er til í brtt. minni, að afhendingin fari fyrst fram. Hitt eru alveg aukaatriði og verða ekki framkvæmd, nema bankinn verði algerlega einstakra manna eign, og seðlaútgáfan þá að sjálfsögðu engin hjá honum, því hún hyrfi þá til ríkisins.

Önnur brtt. fellir niður aðra grein, en tekur hana að vísu upp aftur í síðustu brtt. Þriðja grein er feld niður.

Það skiftir litlu máli, hvort hún er eða ekki. Brtt. er að vísu ómerkileg, en hún leggur þó til, að bankinn greiði 2% í stað 1% af ómálmtrygðum seðlum. Þetta er auðvitað heppilegra að því leyti, að það er tekjudrýgra fyrir ríkið.

Það mætti minnast á það, hvernig skilja ætti 4. gr. frv. Því svo mætti skilja hana, að baukinn megi ekki tryggja nema 33% af seðlum sínum.

Jeg lít svo á, að greiða beri þetta umtalaða gjald af þeim hluta seðlanna, sem ógulltrygður er. Það væri líka rangt að fara að stemma stigu fyrir því, að bankinn trygði seðla sína, ef hann hefir ráð á því. Annars væri æskilegt að fá upplýsingar um þetta.

Hvað snertir 5. brtt., þá er áskilið í 5. gr. frv., að fram megi fara endanlegt mat á hlutabrjefum eftir 2 ár. Þessi frestur er ekki nærri nógu langur.

Jeg vík þá dálítið að öðrum brtt. Það er þá brtt. á þskj. 617: Jeg greiði ekki atkv. með þeim, þó þær sjeu fram bornar af flm. nýja frv., þá eru þær bygðar á þeim grundvelli, að jeg tel þær ekki til bóta.

Brtt. á þskj. 628 eru þannig gerðar, að ómögulegt er að samþykkja þær. (Forseti: Þær voru teknar aftur til 3. umr.).

Það væri ekki illa viðeigandi að benda flm. á, hvernig þær koma heim við frv. Það á að lána Landsbankanum 3 miljónir í seðlum, og þó eigi sjáanlegt, að dragast eigi af seðlum Íslandsbanka.

*) Þm. (Jak. M.) hefir ekki yfirfarið ræðuna, og er hún því prentuð hjer eftir óleiðrjettu handriti innanþingsskrifarans.