17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jakob Möller:

Jeg hefi lítið að segja í viðbót við það, sem jeg hefi áður sagt. Þar sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagðist undrast það, að ekkert hefði verið gert til þess að bæta úr bráðustu þörfinni, þá skilst mjer, að hann eigi þar við, að ekki var gert ráð fyrir lánsheimild áður, en það er gert í þessu frv. En því er löngu lýst yfir, að slíkar tillögur mundu koma frá peningamálanefnd, og var aðeins beðið eftir því, hvernig færi um seðlamálið. En það var frá upphafi óþarft að blanda saman seðlamálinu og leiðinni út úr fjárkreppunni. En nú eru þessar till. komnar, svo að háttv. þm. (Sv. Ó.) þarf ekki að undrast lengur.

Þá vil jeg snúa mjer að hæstv. fjrh. (M. G.). Mjer skildist helst á honum, að hann vildi ekki láta eiga neitt við hlutakaupin, og að bankinn ætti eingöngu að vera „privatbanki“. (Fjrh.: Nei!). En það, sem jeg vildi þá sagt hafa, er, að ef svo væri, er mjer lítt skiljanlegt ástfóstur stjórnarinnar við þetta frumvarp. Og þá skil jeg ekki. hvað kemur til, að stjórnin æskir, að þetta frv. gangi fram.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagðist aldrei skilja, hvað vekti fyrir þeim, er vildu fresta ráðstöfun seðlaútgáfunnar. Það kemur til af því, að sem stendur er Alþingi ekki einrátt um skipun seðlaútgáfunnar, og þeir aðiljar, er koma til greina, eru engan veginn á eitt sáttir um það, hvernig henni skuli fyrir komið. Hjer liggja t. d. fyrir brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Ekkert veit maður, hvernig þeim verður tekið af hinum aðiljanum. Það er mjög sennilegt, að að þeim verði gengið, en vissa er engin fyrir því. Þeir, sem álíta, að ekki sje hægt að skipa seðlaútgáfunni, svo til frambúðar sje, nú sem stendur, álíta, að fyrst þurfi að fá samningsgrundvöll um seðlaútgáfuna til lokatíma Íslandsbanka. Hann hefir enn leyfi til að gefa út seðla, og ef hann neitar, þá getur Íslandsbanki ekki gefið út fleiri seðla. Viðvíkjandi því, sem þessi háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, um að stjórnarfrv. hefði ekki verið lagt til grundvallar, þá virtist okkur ekki svo frá því gengið, að það væri hægt. Jeg býst við, að hæstv. stjórn gæti komið sínu frv. fram hjer, ef hún vildi. Annars gætu flutningsmenn að frumvarpinu á þskj. 520 ráðið nokkuð af undirtektum undir frv., hvers vegna þetta var ekki hægt, því frv. stjórnarinnar er bygt á sama grundvelli og þeirra. En sá hængur er á, að ekki náðist samkomulag við Íslandsbanka. Og þetta er fyrsta ástæðan til þess, að nefndin treysti sjer ekki til að byggja á grundvelli stjórnarfrumvarpsins, og því lagði hún til, að skipun seðlaútgáfunnar yrði frestað þangað til málið væri svo undirbúið í samráði við bankann, að vissa fengist fyrir því, að að henni yrði gengið. Þar fyrir er ekkert á móti því að setja í lög, að Íslandsbanki skuli afhenda seðlana á þessu árabili; það er líklegt, að hann gangi að því, en engin vissa er fyrir því.

Jeg gleymdi að taka það fram um brtt. á þskj. 628, að viðvíkjandi 2. brtt. er það að athuga, að fráleitt er með öllu að ætla að draga það til næsta þings að athuga, hvort hjálpa skuli bankanum eða ekki. Ef þessi till. verður samþ., þá erum við alveg jafnnær hvað kreppuna snertir eftir sem áður.