17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það eru aðeins örfá orð út af ummælum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagði, að ef stjórnin framkvæmdi hlutakaupin, þá gæti það orðið ágætt árásarefni á stjórnina. Þetta er rjett hjá þingmanninum. En hann ætti að sjá það, að stjórnin mun ekki gera annað í þessu máli en henni þykir nauðsynlegt. Jeg er ekki hræddur við landsdóm í sambandi við það. Jeg mun í þessu máli sem öðrum einungis gera það, sem jeg treysti mjer til að standa við. Annars ættum við að hraða þessu sem unt er. Jeg held að lenging þingsins komi sjer illa, vegna skipsferðarinnar, og jafnvel af öðrum ástæðum, svo jeg álít það skyldu okkar að láta þingið ekki standa lengur en orðið er.

Sami háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að ef landið ætti bankann, þá gæti hann verið seðlabanki áfram. En það fer nokkuð eftir því, hvaða hlutverk hann hefir. Aðalviðskiftabanki landsins á ekki að vera seðlabanki.