19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jón Þorláksson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 654 og verð að fara fáum orðum um aðalefni þeirra, þó menn annars sjeu orðnir þreyttir á umræðum um þetta mál.

Brtt. mínar fara fram á, að inndráttur seðlanna byrji 31. okt., vegna þess, að samkvæmt undanfarinni reynslu er mest af seðlum í umferð á þeim tíma, og það er auðvelt að draga inn seðlana á þeim tíma ársins, þegar seðlafúlgan fer minkandi, en hitt er óframkvæmanlegt án mikilla óþæginda, að draga seðla inn á tímabilinu frá 1. maí til 31. október, þegar seðlaveltan er að aukast.

Jeg verð einnig að líta svo á, að talsverða áherslu verði að leggja á það, að seðlamergðin sje ekki of mikil í umferð í einu. Þess vegna hefi jeg gert brtt. um það, að 31. október 1922 megi upphæðin ekki vera meiri en 8 miljónir. Þetta er meðal annars nauðsynlegt, ef gildi íslenskrar krónu á að geta haldist í hendur við gildi dönsku krónunnar. Það lánast aldrei, ef svo mikið er haft í umferð af innlendum seðlum, að enginn útlendur seðill haldist hjer við stundinni lengur. Það er alkunn regla í bankafræði, að betri gjaldeyririnn flýr þann lakari, ef nógu mikið er gefið út af þeim síðari.

Jeg hefi í sambandi við þetta kynt mjer það, hvernig seðlaumferðinni hefir verið háttað undanfarin 10 ár, og í samræmi við niðurstaðan þar er það, að jeg hefi lagt til, að upphæðin verði 8 miljónir 31. október 1922. Annars hefir verið talað um það, að leyfa 5–6 milj. að vorinu, en það svarar til talsvert meiri upphæðar hlutfallslega en 8 milj. að haustinu. Hjer er því í rauninni um minkun á seðlamergðinni að ræða, þó talan sýnist hærri á pappírnum. Þegar umferðin hefir komist hæst, hefir seðlafúlgan numið um og yfir 11 milj. (1918 og 1920). Þó búast megi við því, að þetta verði lægra næsta ár, án þess að lagaákvæði sjeu um það sett, er þó rjett að samþ. till. En fari svo, að 8 miljónir yrðu ekki nógar, er altaf til það úrræði, sem undanfarið hefir verið beitt, en helst ætti ekki að þurfa að gera, nema í brýnni þörf, — sem sje, að stjórnin gefi út bráðabirgðalög um seðlaaukningu, auk þess sem Alþingi kemur saman áður, og þá mætti gera breytingu, ef nauðsyn þætti.

En samt ætti eitthvert hámark ávalt að vera til. Að þessu lúta brtt. mínar, að gera inndráttartímann hagkvæmari og setja sanngjarnt hámark fyrir seðlamergðinni.