19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Eiríkur Einarsson:

Það er nú sjeð, að hið háa Alþingi ætlar að ganga frá máli þessu með því að koma framtíðarskipulagi á seðlaútgáfuna. Þó jeg hafi verið á annari skoðun um þetta mál og eigi ekki þátt í þessum úrslitum, hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt., til þess þó að leitast við að gera málið úrslitaskárra frá mínu sjónarmiði.

Því hefir verið haldið fram, og það er mín skoðun, að undirbúningur máls þessa væri ónógur að ýmsu leyti, og þess vegna ætti að fresta endanlegum málalokum.

Ein hlið málsins hefir þó verið sæmilega undirbúin. Frá Íslandsbanka hendi lá sem sje fyrir samkomulagsboð um það, að láta af hendi seðlaútgáfurjettinn smámsaman, og nú þegar að 21/4 milj. kr., gegn því að fá ívilnanir, t. d. um yfirfærsluskylduna. En þar sem þetta er nú svona, þykir mjer sem þingið megi ekki ganga þegjandi fram hjá þessu, án þess að færa sjer það tilboð bankans að einhverju leyti í nyt; er fyrst að samþykkja handa þjóðinni þann rjett, sem vitanlega er fáanlegur, en síðan óvissuna.

Jeg er í tillögum mínum alls ekki að beita.st á móti tilraunum til að hjálpa Íslandsbanka, t. d. um hlutafjárauka, lán eða ábyrgð, ef varúðar er gætt; en að afsala sjer því vilyrði, sem hann sjálfur er búinn að gefa um ríflega afhendingu seðlaútgáfuunar nú þegar og síðan smám saman, það tel jeg með öllu óforsvaranlegt.

Hinar brtt. mínar eru bein afleiðing af þeirri fyrstu, þó að undanskilinni 9. brtt., að halda í ítarlegt horf skipuninni, sem af þessu mundi leiða. Annars mintist jeg á þessi sömu málsatriði áður, í sambandi við bankafrv. þeirra þriggja þm. Nd., þegar það var til umr. Og þar sem því frv. var vel tekið af meiri hl. þm., þá bjóst jeg við, að þessar brtt. mínar fengju betri byr, ef haldið væri sömu orðatiltækjum, er grundvöllurinn er sá sami hvort eð er. Taldi jeg óforsvaranlegt að láta það besta úr málinu veslast upp, án þess að sjeð yrði, hvort það mætti ekki fram ganga.

Þá er 9. brtt., sem er sjer á parti og ekki viðvíkjandi þessum 3 milj. kr., heldur lýtur hún að því, að meðan ekki er samið við Íslandsbanka, þá haldist þau seðlaútgáfukjör, sem nú eru. Það er ekki rjett að slaka til á meðan eða á undan því að þessir samningar fara fram. Slíkt væri mjög óhyggilegt. Og ennfremur er gert ráð fyrir því með b-lið 9. brtt., að ef ekki gengur saman með ráðamönnum Íslandsbanka fyrir 30. sept., þá þurfi bráðabirgðaskipun, sem jeg hefi gert tillögur um, að næði til 1. maí 1922.

Jeg veit ekki til, að gildandi ákvæði um þetta nái lengur en til 1. júní þ. á., og því þarf að hafa þessa viðaukatill. Og að jeg vilji halda þeim ákvæðum, að ekki skuli breytt um yfirfærsluskylduna, er einnig vegna þess, að jeg vil í engu slaka til við bankann á undan samningum. Enda getur það vel flýtt fyrir þeim, að láta alt bíða óbreytt.

Jeg vænti þess, að háttv. þm. sjái, að höfuðatriði till. minna er að veita en ekki neita landinu um 3 milj. kr. útgáfurjett, er það á kost á, sem jeg vil telja rjett spor í áttina til að auka sjálfstæði landsins og traust á því, en að hafna slíku væri óverjandi.