19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

2514Gunnar Sigurðsson:

Jeg fjell frá orðinu við 2. umr. þessa máls; kveð mjer því hljóðs nú, þar sem jeg hefi sjerstöðu til þessa máls.

Þá get jeg lýst yfir því þegar, að jeg er frv. samþykkur í því að hjálpa Íslandsbanka úr þeim kröggum, sem hann nú er kominn í, vegna þess, að slíkt er nauðsynlegt til þess að bjarga atvinnuvegunum. Jeg er einnig samþykkur frv. í því, að veita tilstyrk með hlutafjárkaupum og sömuleiðis að styrkja bankann með lántökum.

En hins vegar er jeg algerlega á móti endanlegu skipulagi seðlaútgáfunnar nú þegar. Og sannfæring mín er sú, að seðlaútgáfan eigi helst að vera hjá hvorugum bankanum, og þó síst hjá Íslandsbanka.

Jeg gat og um það við 1. umr., að seðlaútgáfan mundi verða langtryggust í höndum veðbankans. Þetta liggur og í augum uppi. Enginn er svo heimskur, að hann vilji ekki heldur veð í fasteign en í víxlum og öðrum þeim pappírum, sem bankarnir hjer hafa nú að bjóða.

Jeg legg því mikla áherslu á það, og vænti þess af stjórn og þingi, að góðir og víðsýnir menn verði nú kosnir til þess að athuga bankamálin rækilega, og það menn, sem ekki þykjast of góðir að leita upplýsinga sjer fróðari manna útlendra um það, hvernig þessi bankamál megi best skipast. Jeg legg meiri áherslu á þetta en frv. þingsins um málin, því við þm. erum engir sjerstakir bankafræðingar, sem ekki er heldur von til.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) mótmælti um daginn þeim orðum mínum, að Íslandsbanki væri spekulationsbanki, og sagði hann vera útgerðar- og verslunarbanka. Hann ætlaðist til, að jeg tæki þessi orð aftur. Það þykir mjer satt að segja nokkur frekja hjá háttv. þm. (J. Þ.). Enginn getur mótmælt þessu. Bankinn er að vísu útgerðarbanki líka. En það er ekki mikill munur á útgerð og spekulation, og hann hefir verið rekinn hjer á síðustu árum einmitt sem slík. Er það ekki t. d. spekulation að senda mestallan fisk af Íslandi árið sem leið í heildsölu, eins og Íslandsbanki gerði? Útgerð fylgir líka áhætta mikil. Það er einmitt vegna áhættunnar, að útgerðarbankar verða að taka hærri vexti en t. d. veðbankar.

Út af orðum hæstv. fjrh. (M. G.) vil jeg taka það fram, að mjer virðist ekki tryggilega gengið frá hlutafjárkaupunum í frv. eins og það kom frá háttv. Ed. Það hefir verið svo hjer á þinginu, að þingmenn hafa nokkuð skifst í tvö horn, eftir því hvort þeir hafa talið sig málsvara fyrir Íslandsbanka eða Landsbankann. Þess vegna gæti jeg trúað því, að ef þingið kysi 2 menn til að rannsaka bankamálin, þá muni annarhvor þeirra verða Íslandsbanka hlyntur. Svipað má segja um hæstarjett, að þó jeg enganveginn væni þá menn, er þar eiga sæti, um græsku, þá er mjer þó um það kunnugt, að sumir þeirra muni eiga hluti í Íslandsbanka.

Jeg geri því þá kröfu sem þm. fyrir landið fyrst og fremst, að úr því þingið nú bregst drengilega við til að hjálpa bankanum, að þá sje þó öll aðgæsla höfð og ekki hlaupið í neinar gönur.

Það þarf að fara fram nákvæm rannsókn á bankanum áður en hlutakaupin fara fram. Og hluthafarnir verða þá að sætta sig við fall á hlutabrjefunum, ef rannsóknin sýnir að það er rjett.