19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jakob Möller:

Jeg hafði búist við, að hæstv. fjrh. (M. G.) tæki til máls á undan mjer. En það gerir vitanlega ekkert til; jeg veit, að svar hans kemur, þótt seinna verði, og jeg get þá hagað atkvæði mínu eftir upplýsingum þeim, er hann gefur. En það, sem kom mjer til að standa upp, voru ummæli samþm. míns, háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann sagði, að jeg hefði oft minst á „toppseðlana“ svokölluðu. Þetta er alveg rjett, en það er af því, að jeg veit, hve mikla þýðingu þeir hafa í þessu máli. Það er viðurkent af hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að tilgangur hans sje, að Íslandsbanki hafi toppseðlana fyrst um sinn, en mjer skilst, að svo verði til loka leyfistímans. Og jeg held, að það sje háttv. samþingismaður minn, sem misskilur þetta, en ekki jeg. Hann segir, að auðvitað hljóti toppseðlarnir að verða hjá báðum bönkunum, sem með seðlaútgáfuna fari. Jeg veit, að bankarnir líta öðruvísi á þetta. Og jeg veit ekki betur en að það hafi verið alveg ófrávíkjanlegt skilyrði af Íslandsbanka hálfu, að hann hjeldi toppseðlaútgáfunni. Ekki skal jeg neita því, að svo mætti koma seðlaútgáfunni fyrir, að tveir bankar geti haft þessa toppseðlaútgáfu á hendi. En þá er mjer spurn um það, hvort það mundi affarsælla, eða hvort þá yrði hægra að hafa eftirlit með seðlaútgáfunni og seðlaþörfinni!

Að öðru leyti vek jeg aðeins athygli á því, að hjer er að nokkru leyti verið að semja um rjett, sem Íslandsbanki hefir og ekki verður af honum tekinn, nema hann brjóti hann af sjer eða afsali sjer honum. En hæstv. fjrh. (M. G.) hefir látið það í ljós, að hann telji hann ekki hafa brotið rjettinn af sjer, og skilst mjer þá, að hitt verði að vera „á hreinu“, hvort hann vill afsala sjer rjettinum. Það kemur auðvitað ekki til, ef það er rjett, sem jeg held fram, að hann haldi toppseðlaútgáfunni samkvæmt till. háttv. samþm. míns (J. Þ.).

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að allir bankafróðir menn teldu það fyrsta skilyrðið til að koma bankamálunum í gott horf, að takmarka seðlaútgáfuna. Jú, mikið rjett. Á þessu hafa allir „teoretikarar“ um heim allan verið að klifa árum saman. En það gengur illa að koma því við í framkvæmdinni. Það er vitanlega rjett, að seðlaútgáfan ætti ekki að vera meiri en nauðsyn ber til, en vandinn er að ákveða nauðsynina. Og þrátt fyrir alt tal hinna bankafróðu manna, þá hefir þetta hvergi tekist. Og það er gersamlega þýðingarlaust að setja lög um það, að hinn 31. okt. 1922 megi ekki vera meira en þetta og þetta í umferð af seðlum, því að það verður samt látið vera meira, ef þörf krefur.

Sami háttv. þm. (J. Þ.) talaði enn um verðfall á íslenskum seðlum, í samanburði við danska seðla, og vildi flytja danska seðla inn í landið, að mjer skildist til þess að halda íslenskum seðlum uppi í verði innanlands. En mjer er spurn: Hvað er greið leið til að lækka gengi á íslenskum seðlum einmitt innanlands, ef ekki sú, að flytja danska inn? Þá mundi verða þvílíkt kappboð um dönsku seðlana, til þess að senda þá til útlanda aftur, að jeg efast ekki um, að fljótlega yrðu boðnar 20 kr. íslenskar fyrir hverjar 10 danskar. Það verð jeg að segja, að er mjög illa til fundin leið til aðgengi íslensku seðlanna, og það mundi koma okkur í slíkar fjárhagslegar ógöngur, að slíkt hefði ekki þekst hjer áður.