13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það mun ekki vanþörf fyrir mig að biðja háttv. deild velvirðingar á því, að jeg ber fram fyrir hana frv. um fjármál, því að sumir hafa haldið því allmjög á lofti, að jeg beri lítið skynbragð á þá hluti. Jeg skal gjarnan viðurkenna, að jeg hefi lítið vit á fjármálum, enda hefi jeg lítið fengist við fjárreiður um dagana. Þó er ein tegund fjárreiðna, sem jeg hefi talsvert fengist við — skuldir. Af þeim hefi jeg allmikla reynslu. Og við þá reynslu hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje hægt að borga skuld, nema eitthvað sje til að borga hana með. Þegar greiðslufjeð vantar, verður að taka nýtt lán, til þess að losna við gömlu skuldina. Þetta er sú eina aðferð, sem mjer er kunn. Ef til vill hafa aðrir fundið aðra leið, og væri jeg þeim mönnum þakklátur, ef þeir vildu benda mjer á hana, því að þá gæti jeg kannske losnað við það lítilræði, sem jeg á eftir af þessari vöru. En á meðan enginn gerir það, verð jeg að halda mjer við mína aðferð.

Jeg býst við, að þessu sje líkt háttað með þjóðina og einstaklinginn, svo að ef hún ekki hefir fje til þess að greiða skuldir sínar, þá verði hún að taka lán til þess að standa í skilum. Jeg hefi verið svo heimskur að halda því fram, að lántaka sje nauðsynleg til þess að bjarga Íslandi úr fjárkreppu þeirri, sem það nú er komið í og hefir verið í um hríð. Aðrir hafa sagt þetta óþarfa. En þar geta þeir aðeins hafa átt við ríkissjóðslán eða lántöku stjórnarinnar fyrir ríkisins hönd, því að landið er altaf að taka lán, og það jafnvel á hverjum degi. Það er aðallega sjerstök lánategund, sem jeg kalla rœningjalán. Þau eru þannig, að maður hjer fær peninga, eða peningavirði, að láni hjá manni í útlöndum. Peningarnir eru borgaðir hjer í banka. Lántakinn fer til bankans og spyr um peningana. „Jú, hjer eru þeir“, segir bankinn, „en þú færð þá ekki, því að jeg ætla mjer að taka þá til láns, hvort sem þú vilt eða ekki.“ Að því er jeg best veit, hafa safnast hjer um 3 milj. slíkra lána, en eigendur eru ýmsir menn og stofnanir víðsvegar um lönd.

Þá heyri jeg sagt, að nefnd manna hafi bannað póststjórninni hjer að borga fje í útlöndum, þó hún vel geti gert það í öðrum löndum en Danmörku, með því að hún hefir póstávísanir til þess, og þarf aðeins leyfi til þess að nota þær Þetta sagði mjer maður, sem veit áreiðanlega um það og óhætt er að treysta.

Þó aðeins sje litið á virðingu landsmanna og tiltrú, þá virðist það heppilegast að taka eitt stórt lán á einum stað, og greiða á þann hátt hinar fleiri skuldir. Yrði slíkt lán tekið með fúsum vilja veitanda til ákveðins tíma. Vitanlega yrði að taka það til nokkurra ára, því að skuldin yrði ekki greidd upp á fyrstu árunum, meðan framleiðslan er að ná sjer upp aftur.

Það er margt, sem hefir stuðlað að því að koma okkur í þessar skuldir. Ill sala á afurðum landsins erlendis, skemd á fiski og umboðssala og verðleysi landbúnaðarafurðanna. Á sama tíma hefir verið keyptur fjöldi skipa og veiðarfæra dýru verði. Hefir þetta alt hjálpast að við að auka skuldirnar og rýra gjaldþol landsins.

Þá veit jeg ekki betur en að Íslandsbanki sje í slíkri fjárkreppu, að hann getur ekki af eigin ramleik útvegað sjer lánsfje. Virðist þá rjett, að ríkið taki lán, bæði fyrir hann og Landsbankann.

Jeg þykist því geta fært fullar sönnur á þörfina á lántökuheimild fyrir stjórnina. Jeg ber þetta frv. ekki fram fyrir beiðni stjórnarinnar eða þingmanna eða annara manna, heldur eingöngu af því, að mjer þótti þessu seinka um of.

Jeg álít svona heimildar þörf, hvað sem hinu háa Alþingi þóknast að gera í bankamálunum. Þó horfið yrði að því ráði að kaupa hluti í Íslandsbanka, þá verður það ekki gert þegjandi eða undirbúningslaust. Fyrst þyrfti að fara fram gagngerð rannsókn á öllu ástandi bankans og ákveða verðmæti hlutanna, að henni lokinni, en þá þyrfti að lána bankanum fjeð á meðan.

Þó að sú stefna yrði ekki ofan á að kaupa hluti í Íslandsbanka, þá er engu að síður þörf á lántöku, til þess að geta gegnt þörfum landsmanna. Landsbankinn þarf líka á lánum að halda. Hann hefir hingað til flutt fje til útlanda eftir megni og orðið að taka lán í útlöndum, sem jeg hygg, að stjórnin hafi tekið ábyrgð á. En það lán er aðeins til bráðabirgða — á að endurgreiðast á þessu ári. Hann þarf því lán til nokkurra ára, til þess að geta staðið í skilum og haldið áfram starfsemi sinni.

Auk þess hefir Landsbankinn flutt yfir peninga, síðan Íslandsbanki hætti því, með þeim hætti, að honum er borgað inn með Íslandsbanka-seðlum og borgar sjálfur fyrir þá fult verð með dönskum seðlum erlendis. Þessu þarf að ljetta af honum, svo að hann skaðist ekki, ef alt í einu skyldi koma sjerstakt gengi á íslenska krónu. Íslandsbankaseðlana þarf því stjórnin að kaupa af honum fyrir erlendan gjaldeyri, og nota þá síðan til að borga landsómögum, embættismönnum og slíku fólki.

Jeg hjelt, að hæstv. stjórn vildi gjarnan fá svona heimild, þó að enginn mundi átelja hana fyrir að taka lán án þess að hafa hana.

Lánsupphæðina hefi jeg sett alt að 15 milj. Ekki er það vegna þess, að jeg sje viss um, að það muni nægja, en jeg bjóst við því, að háttv. deildarmönnum mundi hrjósa hugur við því, ef jeg nefndi hærri upphæð. Jeg held, að þetta muni ekki nægja nema til bankanna, en ef þess væri ekki alls þörf, þá er engin hætta á, að hæstv. stjórn kunni ekki að takmarka sig.

Jeg leit svo á, að hæstv. stjórn mundi vilja fá þessa heimild, áður en bankamálunum er til lykta ráðið, til þess að geta hafið nauðsynlegan undirbúning lántöku, t. d. gæti hún símað til sendiherrans í Kaupmannahöfn og látið hann búa í haginn fyrir sig. Ef til vill hefir hæstvirt stjórn þegar gert þennan undirbúning, eða einhvern annan, þá er það vitanlega frjálst fyrir mjer, því þetta er aðeins getgáta manns, sem ekkert þekkir til. Það getur varla liðið langt áður farið verður að selja íslenska seðla erlendis, jafnvel fyrir hvaða verð sem fæst. Getur þá ekki hjá því farið, að gengið verði lágt, en jeg vil sporna við því, að svo verði.

Jeg veit um eitt stórt fyrirtæki hjer, sem er mjög illa statt, þó að það eigi mikla peninga, vegna þess, að það vantar gjaldeyri til þess að borga efni þau, sem það þarf til framleiðslu sinnar. Þetta fyrirtæki er smjörlíkisgerð Reykjavíkur. Hún hefir gert mikið gagn, því hún framleiðir góða vöru, sem bæði er betri en hin útlenda og sparar hana. Hún sparar landinu allan muninn á því, að kaupa tilbúið eða efnið tómt, auk þess, sem hún bætir vörugæðin. Mætti nefna mörg dæmi þessu lík, sem jeg þó ekki hirði um að sinni.

Hæstv. stjórn svarar náttúrlega fyrir sig, hvort hún óskar eftir heimild þessa frv. Jeg geri það að engu kappsmáli, ef hún kærir sig ekki um það. Jeg vildi aðeins gera mína skyldu, úr því að þeir, sem nær hæstv. stjórn standa, urðu ekki til þess. Hjer voru um tíma nokkrar viðsjár með mönnum, svo ekki var á víst að róa fyrir stjórnina. En nú hefir hún fengið yfirlýst fylgi svo margra háttv. þingmanna, að hún getur óhrædd starfað að því, sem henni virðist nauðsynlegt og gott.