19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Fjármálaráðherra (M. G.):

Lánið á að vera til þess að kaupa fyrir væntanlega hluti í Íslandsbanka, og hjelt jeg að háttv. þm. (Jak. M.) þyrfti ekki að láta segja sjer það. Þetta lán getur hæglega fallið undir einn flokk lána, sem hann taldi upp, lán til arðvænlegra fyrirtækja. En háttv. þm. ætti að geta sjeð, að ekki kom til mála, að stjórnin tæki þetta lán fyrir þing, meðan alt var í óvissu, hvernig snúist yrði við þessu máli.

Háttv. þm. (Jak. M.) ætti líka að vita, að stjórnin hefir útvegað Landsbankanum öll þau lán, sem hann hefir farið fram á og álitið sjer nauðsynleg. Alt þetta er ljóst öllum nema ef til vill háttv. þm. (Jak. M.), af því, að hann vill nota alt til þess að skamma stjórnina. Jeg er fyrir löngu hættur að kippa mjer upp við aðfinningar hans, enda eru þær sjaldnast á rökum bygðar. Og jeg get fullvissað hann um, að jeg hefi sama álit á honum nú og jeg hafði í þingbyrjun. Jeg hefi það álit á honum, að lítill vilji og enn minni alvara hafi legið á bak við öll digurmæli hans, enda sýnir starf hans í peningamálanefndinni, að svo hafi verið; sú nefnd hefir ekkert gert. Og jeg get fullvissað háttv. þm. (Jak. M.) um, að jeg hafi meiri hluta deildarinnar með mjer í því, að óheppilegt hefði verið að taka lán þau, sem hann rjeði til. Og ef jeg á að fara áfram með stjórn fjármálanna, mun jeg fara varlega í allar lántökur, því að jeg hefi sömu skoðun á því máli og í þingbyrjun.

Annars hefi jeg gaman af því, að háttv. þm. (Jak. M.) er altaf að finna ný og ný gullkorn í ræðu minni við 1. umr. fjárlagafrv., og hampar þeim mjög. Annars þætti mjer gaman, ef þessi þm. (Jak. M.) greiddi atkvæði móti frv. eftir alt lánanöldrið.