19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. (Jak. M.) ruglaði viljandi saman „spekulationslánum“ og lánum til arðvænlegra fyrirtækja.

Jeg held því fram, að kaup á hlutum í banka fyrir sannvirði geti verið, og sje venjulega, arðvænt fyrirtæki. Og það ætti ekki að spilla, að með þessu má hjálpa atvinnuvegunum. Annars var það ekki lán sem þetta, er jeg átti við í oftnefndri ræðu minni, því að jeg hafði þá ekki, fremur en aðrir, hugmynd um, hver lausn yrði á bankamálunum á þinginu.

Þessi háttv. þm. (Jak. M.), sem er þrár eins og staður áburðarhestur, talar mikið um hringsnúning. Honum kemur það aldrei til hugar að sveigja til, til samkomulags: honum þykir það óskiljanlegt, að 42 menn skuli ekki allir standa á sinni skoðun eins og hundur á roði. Hann sveigir aldrei til, hann snýst óviljandi í hring í einfeldni sinni. Jeg get til skemtunar bent honum á einn slíkan snúning. Hann hefir barist gegn bankafrv. stjórnarinnar, en er nú með þessu frv., sem öllum kemur saman um, að sje mjög í svipaða átt og hann hefir áður mælt sterklega á móti.