19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að stjórnin hefði sveigt of mikið til. Þetta er ekki rjett. Hann segist trúa mjer til að blekkja þingið og til að breyta gegn sannfæringu minni. Hann um það; en það er víst, að með sauðargæru sinni blekkir hann engan, og sannfæring hans mun í því einu fólgin, að alt sje rangt, sem stjórnin gerir. Það er von, að hann sje skapillur nú í þinglokin, er hann sjer, að allar tilraunir hans í þrjá mánuði til að fella stjórnina, hafa stórum aukið fylgi hennar.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði, að hægt hefði verið að taka lán handa Landsbankanum í sumar. En veit hann ekki það, sem allir vita, að Landsbankinn hefir fengið öll þau lán, sem hann taldi sjer nauðsynleg. Þá vildi hann, að ekki yrði tekið smálán. Jeg fer vitanlega eftir því, sem jeg álít rjettast, og jeg álít rjettast að fara varlega. Mjer kemur það ekki á óvart, þótt háttv. þm. (Gunn. S.) treysti mjer ekki í þessu máli. Og jeg vil í þessu sambandi minna þennan háttv. þm. (Gunn. S.) á það, að hann lofaði á öndverðu þingi að koma með vantraust á mig á þessu þingi. Það hefir hann ekki gert enn, og þá eðlilega af þeirri ástæðu, að hann vissi, að hann gat ekki komið því fram.