03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Stefán Stefánsson:

Mjer þótti mjög mikið á vanta, þegar þetta frv. kom fram, að nefndin skyldi ekki gefa einhverjar bendingar frá eigin brjósti um það, hvernig hún liti á málið. Nefndin hefði átt að birta allar þær helstu upplýsingar, sem hún hlýtur að hafa aflað sjer við nána athugun málsins.

Tilgangur frv. er að sjálfsögðu sá, að reyna að tryggja Íslandi svo sem unt er síldveiðina og markaðinn erlendis fyrir íslenska síld. Og því er ekki að neita, að næðist þetta, þá væri það mikilsvert, næðist það með því móti eða á þann hátt, að við þá ekki bökuðum okkur tjón á annan hátt í viðskiftunum við önnur ríki. En ráðið til þess að tryggja þessa verslun okkar líst mjer helst eftir frv. eiga að vera það, að banna útlendingum að verka síld í landhelgi og í landi. Það kann að vera, að þetta sje eina ráðið, en samt er jeg nú ekki trúaður á það, því að á síðari árum hafa útlendingar veitt mjög mikla síld utan landhelgi. t. d. hefi jeg fengið upplýsingar um, að á árinu 1919 hafi Svíar aflað með þessu móti 70 þús. tunnur síldar, sem þeir svo fluttu til Svíþjóðar og seldu þar sem íslenska síld. Þetta gefur mjer bendingu um það, að það sje spursmál, hvort tilgangi þessa frv. verði náð, þótt bann sje sett um verkun á landi eða í landhelgi, hvort það verði ekki einmitt til að hvetja útlendinga til að haga þannig síldarverkuninni framvegis, svo allar þær þúsundir króna, sem ríkissjóður, verkafólk og landeigendur hafa orðið aðnjótandi, tapist með öllu, en þeir hafi svo íslenska síld á markaðinum, sem spilli sölunni alveg á sama hátt og eins mikið fyrir okkur eins og sú, sem verkuð er í landi eða í landhelgi. Og ef þetta frv. yrði þess valdandi, þá væri ver farið en heima setið. Mjer hefir því dottið í hug, hvort ekki væru önnur ráð, sem grípa mætti til, t. d. að öll síldarsalan kæmist undir eina stjórn. Eða mundi óhugsandi, að Norðmenn og Svíar yrðu tilleiðanlegir til þess að láta stjórnina, eða máske stjórn Síldveiðifjelags Íslands, standa fyrir sölunni?

Annars er þetta mjög athugavert mál, einnig að því leyti, að það geti stofnað okkur í hættu gagnvart öðrum viðskiftum okkar við þessar nágrannaþjóðir. Nú er það svo, að selt er mikið af útfluttu saltkjöti til Noregs, og ef þeir tækju ákvæði þessa frv. illa upp, þá væri hægt um vik fyrir þá að gjalda líku líkt og láta hart mæta hörðu.

Um þessa hlið málsins verður heldur eigi sagt með vissu, en hún getur orðið allalvarleg, ef þannig verður við snúist af Norðmönnum.

Nú höfum við trjáviðarverslun okkar aðallega við Norðmenn og Svía, og mætti svo fara, að þau viðskifti yrðu gerð okkur erfiðari, ef frv. þetta næði fram að ganga.

Og hvernig standa svo sakirnar fyrir innlendum útgerðarmönnum gagnvart bönkum? Fá þeir nægilegt fje þaðan sem stendur til þess að reka útveginn í stórum stíl?

En ef varnað yrði öllum útlendum mönnum frá því að verka hjer síld í landi, og með því kastað frá ríkissjóði og verkalýð öllum þeim þúsundum króna, sem þaðan koma, án þess þó, að við getum hagnýtt okkur alla þá framleiðslu, sem markaðurinn þolir erlendis af íslenskri síld, þá teldi jeg slíkt eigi hyggilega ráðið.

Annars tel jeg, að fara eigi varlega í þessa útilokunarstefnu, ef svo mætti vera, að hún gæti orðið til þess að hálfgert verslunarstríð við helstu viðskiftaþjóðir okkar hlytist af. Og sýnist mjer, að hjer megi um fram alt eigi hrapa að neinu að lítt hugsuðu máli. Því sje nokkur hætta á, að þetta ráð spilli okkar kjötsölu eða geri viðskiftin að öðru leyti erfiðari, þá er það óráð.