03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagðist hafa látið þá skoðun sína í ljós í nefndinni, að hann væri málinu mótfallinn. En jeg varð engra mótmæla var hjá honum, að minsta kosti eigi hvað snertir takmarkanirnar til þess að tryggja innlendum mönnum veiðina. Hitt má vera, að hann hafi fremur kosið smávægileg fyrirkomulagsatriði öðruvísi, og er það eigi nema eðlilegt, þar sem þessi háttv. þm. (J. B.) hefir sjerstöðu í ýmsu, sem þar að lýtur.

Þá hefir háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) látið í ljós eindregið, að hann teldi varhugavert að samþ. þetta frv. Verð jeg að vorkenna honum, að hann skuli eigi af undanfarinni reynslu hafa látið sannfærast um, að hjer er þörf skjótra úrræða. Hefði jeg óskað, að hann hefði haft betri málstað að verja en hann nú hafði.

En afstaða hans mun nú hafa orðið þessi sökum þess, að nokkur hluti kjósenda hans hefir misskilið, hvað hjer var á ferðinni, og krafist þess svo af honum, að hann hjeldi fram máli þessu. En jeg vona, að þessi háttv. þm. (St. St.) sjái að sjer í tíma og bæti ráð sitt.

Háttv. sami þm. (St. St.) sagði, að það þyrfti að leita upplýsinga í málinu. Jeg sje eigi annað en málið liggi alveg ljóst fyrir. Hjer er ekki farið fram á annað en það, að innlendir menn og útlendir, sem öðlast hafa rjettindi innlendra manna, bindist samtökum um það að gera þennan atvinnuveg arðvænlegri en verið hefir að undanförnu, ef unt er;

Sje jeg eigi, að altof mikla áherslu megi leggja á það, þó að einhverjum útlendingi kynni að líka þetta miður. Er hjer heldur eigi farið fram á að svifta neinn rjettindum, sem hann hefir áður haft, og er því útlendum mönnum, búsettum á Siglufirði, enginn órjettur ger. En það sýnist mjer sjálfsagt að varna því, að útlendir menn flykkist hingað til að eyðileggja atvinnuvegi landsmanna sjálfra. Minnist jeg í þessu sambandi sögunnar um bóndann, sem kom að manni, sem áði í landi hans. Kvaðst bóndi eigi vera það lítilmenni að þola honum, að hann beitti land sitt, og sá svo um, að til þess gat eigi aftur komið. Finst mjer hjer vera líkt á komið. Væri það lítilmenska af okkur að þola útlendingum að beita svo land okkar, að við hefðum þess lítil eða engin not, og því verðum við að grípa til varnarráðstafana, þó að með nokkrum öðrum hætti sje en bóndinn viðhafði.

Jeg verð að fara nokkuð fljótt yfir sögu, enda sakar það eigi, því ástæður þingmannsins (St. St.) voru allar gamlar og alþektar og marghraktar.

Um þá ástæðu háttv. þm. (St. St.), að útlendingar mundu þá veiða þess meira utan landhelgi, þarf ekki að fjölyrða, hún hefir oft áður heyrst og reynst vera fremur veigalítil. Er jeg og þess fullviss, að svo mundi eigi verða. Þá ástæðu met jeg líka einskis, að útlendar þjóðir muni láta okkur snúa afarkostum, þó við reynum að tryggja atvinnuvegi okkar. Munu flestar þeirra hafa viðskifti við okkur vegna þess, að þær álíta, að þær hagnist á því, og munu þær halda þeim viðskiftum áfram jafnt eftir sem áður. Hvað undirskriftirnar snertir, þá má geta þess, að oft þarf eigi nema einn duglegan mann til þess að safna fjölda þeirra, en áhugi eða hagsmunir þarf eigi að vera til staðar hjá þeim, sem undirskrifa. Jeg held því, að háttv. deild ætti eigi að láta þessar undirskriftir aftra sjer frá því að samþ. frv., því eigi er kunnugt um, að þessir menn sjeu svo settir, að þeir eigi að ráða hjer öllu um.

Mun jeg því eigi svara þessu meira að sinni. nema ef fram koma mótmæli, sem eru á einhverju bygð og þörf er á að hnekkja.