10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg mintist á þetta mál nokkrum orðum við 1. umr., og þýðir ekkert að vera að endurtaka það.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) hefir einnig tekið af mjer ómakið, ef eitthvað hefði verið, sem ekki var áður nægilega skýrt.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) talaði nokkuð um, að þetta mál væri mjög athugunarvert, enda auðsjeð á því, að 5 brtt. hafa komið fram, sem ganga í þá átt að gera málið lítils eða einskis virði. Jeg vil fyrst, áður en jeg tala um brtt., minnast nokkuð á þær almennu athugasemdir, er þessi hv. þm. (Gunn. S.) bar fram.

Það var raunar ekki neitt nýtt; það var það sama, sem menn bera við, er þeir vilja hamla framgangi einhvers máls, að segja að það sje illa eða ónægilega undirbúið. Þetta var aðalástæðan, en hann rökstuddi hana ekki.

En því er nú svo varið með þetta mál, að það er vel undirbúið af þeim mönnum, sem best gátu undirbúið það og mest afskifti hlutu að hafa af því í framkvæmd.

Hann kvað svo að orði, að það mætti ekki verða að lögum. Hann gerði mikið úr þessari fullyrðingu, en með allri virðingu fyrir lagaþekkingu hans og reynslu í málum, þá verð jeg að segja, að hann hafi tekið of djúpt í árinni. Hann mintist á það, að það væri hættulegt að samþykkja lög eins og þessi, sem kæmu í bága við hagsmuni annara þjóða, er við kynnum að vera komnir upp á með viðskifti. Þessu hefir áður verið svarað, og þó ekki í þessu sambandi. En þessi andmæli gegn frv. eru bygð á misskilning. Það er alls ekki ætlast til þess, að þeir útlendingar, sem hafa rjettindi hjer í landi. verði sviftir þeim, heldur verða þeir að sæta sömu kjörum og skilyrðum og landsmenn sjálfir. Það er gert ráð fyrir, að útlendingar geti ekki komið hingað hópum saman og flutt út framleiðsluna og eyðilagt markaðinn fyrir okkur. Ef háttv. þdm. skilja ekki þetta, þá furða jeg mig ekki á því, að þeir andmæla frv.

Sami háttv. þm. (Gunn. S.) gerði mikið úr því, að ef frv. kæmist til framkvæmda, þá mætti búast við, að allir útlendingar, er hafa rjettindi hjer, mundu mótmæla þessu. Þá mætti og búast við, að útlendingar gerðu úlfaþyt út af fleiru en þessu, og ekki tel jeg holt, að við sjeum mjög viðkvæmir fyrir öllu þess konar.

Jeg ætla ekki að svara þessum hv. þm. (Gunn. S.) fleiru; mótbárur hans gefa ekki frekari ástæðu til andsvara.

Þá er 1. brtt. á þskj. 521, við 1. gr. Hún er nákvæmlega eins orðuð og brtt. nefndarinnar á þskj. 478, og því þýðingarlaus.

Í 2. brtt. sinni fer þessi sami háttv. þm. (Gunn. S.) fram á, að feldar verði niður 2., 3. og 4. gr. frv. Jeg skal geta þess, að ef þessi brtt. verður samþ., þá gerir það frv. einskis nýtt. Jeg gæti aftur á móti fallist á 3. brtt. hans, að ríkisstjórnin útnefni formann fjelagsstjórnarinnar.

Þá virtist háttv. þm. (Gunn. S.) leggja talsverða áherslu á, að ákvæði 9. gr. um stærð skipanna verði breytt þannig, að hún væri ákveðin 10 smálestir, í stað 50. Honum virðist þetta áhugamál, en það stafar aðeins af misskilningi þessa háttv. þm. (Gunn. S.) Hann sagði, að það væri hart að útiloka frá fjelagsskapnum þessa menn. En það er langt frá því, að það yrði gert; ef þeir sækja um inntöku, þá fá þeir hana eins og aðrir. En þetta er gert af því, að þeir þurfa þá ekki að sækja um inntöku fyr en eftir á, og því sje jeg ekki, að nein ástæða sje til að samþ. þessa brtt.

Um 5. brtt. er það að segja, að hún er alveg ónauðsynleg. Ef lögunum er eitthvað ábótavant, þá verður þeim breytt strax og gallar þeirra koma í ljós. Um brtt. á þskj. 478 þarf jeg ekki að tala, hún er aðeins til að færa 1. gr. til betra máls og ákveða nánar um innihald hennar.

Þá kvartaði háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) undan því, að honum hefði virst vera tekið ómjúkt á andmælum hans við 1. umr. En jeg man ekki eftir, að þeim hafi verið svarað á annan hátt en við átti, þó að þá kæmi dálítill skoðanamunur fram.

Jeg bjóst ekki við, að honum mundi koma það svo mjög á óvart, þótt jeg segði álit mitt nokkurnveginn skýrt og skorinort.

Sami háttv. þm. (St. St.) vill líka vísa þessu máli til betri athugunar til stjórnarinnar, og vitnaði þar til undirtekta 220 Siglfirðinga; en jeg veit ekki, hvort það hafa alt verið kjósendur. Það stendur nú alveg sjerstaklega á með þennan kaupstað. Þar hefir veiðiskapur útlendinga aukist svo mjög, en með því hefir líka reynsla fengist fyrir því, að það muni naumast arðvænlegt að stunda þennan atvinnuveg í framtíðinni, ef útlendingum fjölgar þar úr þessu.

Jeg nenni svo ekki að svara hinum einstöku atriðum; það yrði altof langt mál.

Mig furðar stórkostlega á því, að þegar fyrst var rætt um þetta mál, þá voru flestir sammála um, að nauðsyn væri á því að koma föstu skipulagi á þennan atvinnuveg. En þegar kemur til þess að taka ákveðna stefnu, þá verður þessi úlfaþytur út af því og menn sjá alstaðar ljón á veginum, og mjer liggur við að segja, að verið sje að mála fjandann á vegginn. Jeg held því fram, að hjer sje um stóra hættu að ræða, og nauðsyn beri til að reyna að fyrirbyggja hana, eftir því sem hægt er, svo þessi atvinnuvegur leggist ekki í kaldakol. Jeg vil nú vísa til greinargerðarinnar, sem frv. fylgdi, og ef háttv. þingmenn vildu hafa fyrir að kynna sjer hana, þá mundi það líklega hafa áhrif á skoðanir þeirra.

Jeg skal ekki vera langorður um dagskrána, en jeg tel það illa farið, ef hún verður samþykt; en jeg vona, að deildin lofi frv. að ganga til næstu umræðu, svo að deildarmenn, sem hafa áhuga á þessu, fái tækifæri til að reyna að finna ráð, er flestum gæti geðjast að.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg álít, að þeir, sem greiða atkvæði með þessari dagskrá, sjeu með því að eyðileggja einn álitlegasta atvinnuveg landsins.

Háttv. þingmenn ættu jafnframt að athuga það, að með því verða þeir einnig þess valdandi, að við verðum undirlægjur erlendra yfirgangsseggja.