10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Magnús Kristjánsson:

Það er að vísu leitt að tefja tímann, en jeg verð þó að segja örfá orð.

Mjer finst skilningur háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) ekki hafa glæðst, þótt honum hafi verið bent á hið rjetta í þessu máli. Hann heldur fram sömu kórvillunni, svo maður gæti hugsað, að háttv. þm. (Gunn. S.) hefði ekki lesið frv.

Þótt jeg beri fulla virðingu fyrir lögspeki háttv. þm. (Gunn. S.), þá get jeg ekki fallist á, að sá skilningur felist í frv., að útlendingar, sem fullnægja ákvæðum laganna um búsetu hjer á landi, megi ekki verka síld í landi.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þessi atriði, og skal ekki lengja umræðurnar. En jeg verð að víkja nokkrum orðum að seinustu athugasemdum, eða öllu heldur aðdróttunum, háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) í minn garð, þar sem hann sagði, að jeg hefði snarsnúist í máli þessu eftir skoðun hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Talshátturinn segir, að ómerk sjeu ómagaorðin, og þyrfti því ekki að svara þessu frekar, fremur en ýmsu úr þeirri sömu átt. Og jeg held, sannast að segja, að háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hefði sjálfur orðið þess var oftar en einu sinni, að jeg hefi haldið fast við mitt mál og mínar skoðanir og ekki hvikað frá þeim, hver sem í hlut á. Og það hefði þessi háttv. þm. (Gunn. S.) gott af að leggja sjer sjálfum á hjarta, svo hann yrði ekki framvegis leiksoppur í höndum sjer verri manna.