14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg gef mig nú ekki út fyrir neitt sjerstaklega fróðan um milliríkjalög, og vil því ekki segja neitt ákveðið við fyrirspurn háttv. þm. Str. (M. P.), því að um slíkt er sjerfræðingum einum fært að dæma.

Þó hefir mjer verið frá því skýrt, að Svíar hafi sett hjá sjer svipuð lög að einhverju leyti þeim, er hjer eru á ferðinni, en þau mættu mjög mikilli mótspyrnu. Mig minnir, að lög þessi færu í þá átt, að erlend skip mættu ekki selja afla sinn þar í landi. Þetta sætti miklum mótmælum utan að, og hygg jeg, að Svíar hafi horfið frá þessu ráði. Hins vegar mun það ekki koma í bága við alþjóðavenju eða milliríkjasamninga, þó vjer takmörkum veiðina, setjum einkasölu o. s. frv.

Um það atriði, að stjórninni væri heimilt að fresta framkvæmd laganna að nokkru eða öllu, skal jeg taka það fram, að stjórninni mundi vera lagður með því mikill vandi á herðar, og gæti það jafnvel orðið henni hin versta hengingaról. Furðar mig því eigi, þó að háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) mótmælti, að stjórninni væri þessi vandi búinn, því að þessi háttv. þm. hefir verið besti stuðningsmaður stjórnarinnar á þessu þingi.