14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer skildist svo, að háttv. þm. Dala. (B. J.) beindi þeirri fyrirspurn til mín, undir hvaða stjórnardeild þetta utanríkismál heyrði. Jeg verð að játa, að jeg skil ekki þessa fyrirspurn. Mjer er óskiljanlegt, hvernig hann fer að kalla þetta utanríkismál á þessu stigi málsins. Það er ekki utanríkismál, þótt vjer setjum lög um síldveiðar vorar. Hitt er annað mál, ef deila hefst um þessi lög við önnur ríki, þá þarf að semja, og þá fyrst er hægt að tala um utanríkismál. En engin slík deila er komin fram. Stjórnir erlendra ríkja fara ekki að hlaupa upp til handa og fóta, þótt eitthvert frv. komi fram, og segja, að þetta og þetta megi ekki gera. Mjer er kunnugt, að stjórn eins ríkis fylgist mjög vel með öllu, sem gerist í máli þessu, en engin deila er fram komin, svo það er ekki um neitt slíkt að ræða hjer. Á hinn bóginn má ekki líta of mikið niður á það, sem blöð heillar þjóðar tala um.