14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Magnús Jónsson:

Mjer þykir það leiðinlegt, að við háttv. þm. Ak. (M. K.) skulum ekki geta orðið sammála hjer, því að tilgangur okkar er áreiðanlega sá sami, að vernda þennan þjakaða atvinnuveg. Hæstv. atvrh. (P. J.) gat um það, að von væri að útgerðarmönnum sárnaði að sjá útlendinga fiska hjer og verka hjer, án allrar umsjónar. Þetta er rjett. Þess vegna er umsjón nauðsynleg.

Það hefir verið bent á tvær höfuðleiðir. 1) takmörkun veiðinnar, og þá einkum útiloka útlendinga, og 2) að haga sölunni sem hentugast. Í frv. er aðaláherslan á takmörkuninni. Eftir því á að útiloka alla, sem ekki eru búsettir hjer á landi. En þetta getur vakið úlfaþyt. Við höfum lagt til, að þetta ákvæði yrði felt niður, og er okkur fyrir þá sök brugðið um undanhald. En undanhaldið er engu minna með frestunartillögunni.

Í brtt. okkar er aðaláherslan lögð á það, að tryggja söluna sem best. Með því móti er siglt fyrir ágreininginn, en öllu þó í raun rjettri náð. Norðmenn og Svíar mundu trauðla sætta sig við að láta stjórnina selja síldina, en mundu á hinn bóginn ekki geta komið upp neinu hljóði til andmæla, því að jafnrjetti er við Íslendinga. En þá er takmörkunin á veiðinni leidd í framkvæmd, án allrar hörku og án þess að vekja úlfúð.

Það er rangt að bregða okkur um, að við viljum, að Íslendingar hætti að vera búsbændur á sínu heimili. Við viljum það engu fremur en hv. þm. Ak. (M. K.) og aðrir góðir menn. En við vitum, að við verðum það svo best, að við lifum í þeim friði, sem unt er, við hina stærri nágranna vora og reiðum ekki að þeim hnefann upp úr þurru.

Það má meira að segja telja vafasamt, hvort þessi aðferð er sæmileg. Hjer er hnefi reiddur í því skyni að láta hinn kaupa sig undan högginu. Jeg er viss um, að ekkert erlent ríki lætur bjóða sjer slíka meðferð. Ef þetta er talið heppilegt, hvers vegna er þá ekki reynt að finna upp samskonar aðferð við t. d. Spánverja eða aðrar þjóðir, sem við eigum viðskifti við. Jeg er í mjög miklum vafa um, að þessi aðferð komi að gagni atvinnuvegi þeim, sem vernda á, og er þá ver farið en heima setið.

En með till. okkar er sama árangri náð, sem tilætlaður er með bannákvæðinu, en hún er svo úr garði gerð, að engin þjóð getur fett fingur út í þá meðferð. Landsmönnum sjálfum eru settir sömu skilmálar, og getur því ekki verið borið við af útlendingum, að þeir sjeu misrjetti beittir. En eins og jeg hefi bent á áður, er eins mikil takmörkun fólgin í ströngum söluskilmálum og í banni. Tilganginum er náð, að samræma söluna, til þess að vernda síldarmarkaðinn, og það er gert með því móti, að aðrir geta ekki undan því kvartað. Og að þessi aðferð er engu minni trygging, sjest kannske best með því að athuga, að einmitt bankarnir, sem eiga svo mjög á hættu, er þeir láta fje í þennan atvinnuveg, munu vera mest með og telja sig tryggasta með þessari aðferð. Þar sem bankarnir eru, er líklega besti dómstóllinn í þessu máli.

Jeg verð að leggja mesta áherslu á 5. og 7. lið brtt. og vona, að háttv. deild samþ. þá, hvernig sem um hina fer. Jeg veit, að margir vilja fella greinina, en ef það er gert, er ekkert eftir af lögunum í raun og veru; atvinnuvegurinn er í engu trygður. En ef brtt. okkar er samþykt, er öllu því náð, sem æskilegt er. Útlendingum er leyft að fiska og verka síld hjer við land, en þær takmarkanir eru settar, að atvinnurekstur þeirra spillir ekki markaði vorum.

Háttv. þm. Str. (M. P.) talaði um það, hve þingmenn væru fljótir að glúpna; en jeg tel það enga furðu, þegar augljóst er, að vandræði geta leitt af öllum þráa í þessu efni. Við erum ekki færir um að setja öðrum þjóðum algerlega stólinn fyrir dyrnar, og hefja ef til vill viðskiftastríð við þær. Að minsta kosti eigum við ekki að gera leik að því, þegar við getum náð sama tilgangi hávaðalaust.

Hæstv. atvrh. (P. J.) talaði um, að Síldveiðifjelagið yrði óþarft, ef till. okkar yrði samþykt. Það fæ jeg ekki sjeð. Það er eins og hver önnur samtök, og verður engu ónauðsynlegra, þó að stjórnin taki að sjer söluna. Best að hafa einmitt eitthvað slíkt, sem er töluvert umsvifamikið og reglubundið hjer á landi, því það megum við vita, að útlendum auðmönnum er allra óljúfast að þurfa að beygja sig fyrir því, og það miðar því í takmörkunaráttina.

Þá tel jeg nauðsynlegt að breyta ákvæðinu um 50 tonna báta niður í 10 tonn, en það er af mótsettri ástæðu við háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann taldi, að með þessu móti væri mönnum, sem ættu litla báta, sýnt ranglæti, en jeg tel, að þeim sjeu veitt of mikil rjettindi með þessu.

Eins er nauðsynlegt, að þeir sjeu í fjelaginu, til þess að hægt sje að hafa eftirlit með veiði þeirra. Það gæti valdið fjelaginu mikilla óþæginda, ef margir bátar gætu veitt mörg þús. tunnur af síld eftirlitslaust, og hent því svo í fjelagið til söluráðstafana. Þetta kæmi ruglingi á samræmi það, sem stofna á til. Jeg vil því styðja það, að öðrum bátum sje ekki leyft að vera utan fjelagsins en þeim, sem eru undir 10 tonn, og með því er fjelagið fyllilega trygt.