14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Stefán Stefánsson:

Það eru ekki mörg orð, sem jeg vildi segja að þessu sinni. Mjer virðast brtt. á þskj. 607 öllu varfærnislegri en ákvæði frv. sjálfs. En þó að svo virðist í fljótu bragði, tel jeg varhugavert að binda nokkuð fastmælum í þessu efni nú, því að málið er mikilvægt, en ekki hugsað og undirbúið að sama skapi. Það hafa komið fram raddir um, að lögunum þyrfti að breyta þegar á næsta þingi, en jeg tel ekki heppilegt að koma á svo fljótfærnislegri löggjöf í vandamálum þjóðarinnar. Við höfum alla ástæðu til að fara varlega í þessu efni.

Jeg hjó eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að Svíar hefðu farið líkt að og nú er til stofnað hjá okkur, en orðið frá að hverfa af því, að það braut um of í bág við atvinnurekstur annara þjóða. Jeg held, að við getum varla vænst þess, að okkur líðist meira í þessu efni en Svíum. Jeg mun því taka upp aftur dagskrá þá, sem jeg bar fram um daginn, en fjell þá frá, í von um að málið gæti fengið þann undirbúning, sem á vantaði, á þessu þingi. Jeg held, að allir, sem vilja málinu vel, geti fallist á þessa leið, og vænti jeg þess, að hæstv. forseti beri dagskrána undir atkvæði.