20.05.1921
Efri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Halldór Steinsson:

Það má segja líkt um þetta mál og önnur fleiri, sem hafa komið til okkar á þessum síðustu dögum. Það kemur frá háttv. Nd., þegar liðið er fast að þinglokum, og er því lítill tími fyrir okkur til að athuga málið. Þó hygg jeg, að meiri hluti deildarinnar hafi verið því mótfallinn eins og það kom frá hv. Nd. En þetta er slíkt stórmál, að eigi hlýðir að leggja það á hilluna.

Á síðasta ári varð stórtap á síldarsölunni. Það tap skifti ekki tugum eða hundruðum þúsunda, heldur miljónum. Þetta hefir mikið stafað af samtakaleysi síldarseljenda. Hver hefir potað með sölu á sinni síld fyrir sig, í stað þess að hafa alla síld landsmanna á einni hendi. Flestir seldu síldina síðastliðið ár komna til Svíþjóðar, og þótt síldin væri metin hjer af lögskipuðum matsmönnum, þá dugði það ekki. Þegar til Svíþjóðar kom, var hún metin af Svíum og mikið af henni dæmt óhæf vara. Með þessu hafa Svíar smánað matsmenn vora, og enda þjóðina líka, því að þeir eru eiðsvarnir trúnaðarmenn hennar. Þetta hefði aldrei getað komið fyrir. ef öll salan hefði verið á einni hendi, og síst þó, ef landsstjórnin hefði haft söluna. Þetta tap hefir áreiðanlega mest stafað af samtakaleysi þeirra, sem seldu. Aðalatriðið er því, að koma allri sölunni á eina hönd.

Með þetta fyrir augum eru brtt. okkar hv. 1. landsk. þm. (S. F.) gerðar. Ýms önnur atriði frv. eru varhugaverð, og önnur þann veg vaxin, að þau geta vel beðið næsta þings. Jeg vil geta þess, að jeg felli mig betur við brtt. á þskj. 668, og tek því aftur 2. lið í brtt. á þskj. 667. Hygg jeg, að þessar brtt. gangi í þá átt, sem háttv. deild hefir helst hugsað sjer. Vona jeg því, að þær verði samþyktar, og er þá stigið talsvert spor í áttina til betra skipulags.