20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jakob Möller:

Mjer finst þetta mál hafa tekið þeim stakkaskiftum síðan er það fór frá deildinni, að það sje ekki þekkjandi fyrir sama frv. og áður. Og það er áreiðanlegt, að frv. er orðið alt annað en þeir menn ætluðust til, er báru það fram í öndverðu.

Mig furðar á því, að sumir háttv. þdm. hafa ekki tekið eftir þeim stórvægilegu breytingum, sem frv. hefir tekið, t. d. að heimildin um að takmarka veiðina er nú í burtu feld. Þó virtist mjer, sem háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hefir rekið augun í þetta, en ætlar þó að sætta sig við frv. (Gunn. 8.: Það má bæta úr þessu með reglugerðinni). Nei, það er ekki hægt með reglugerð, eftir að þingið hefir felt þetta ákvæði burt. En þetta er þó höfuðatriði málsins, og þessu takmarki átti lagasetning þessi að ná. (Gunn. S.: Stjórnin getur þá sett bráðabirgðalög). Já, hún getur sett bráðabirgðalög, en hún hefir ekki eins mikla ástæðu til þess, þegar þingið hefir sýnt, að því stendur á sama um það og telur það einskisvert.

Ef ekki veiðist meira en svo, að rjett sje hæfilegt til þess að fullnægja eftirspurninni, þá þarf ekkert að óttast; en það verður að halda uppi verðinu, þegar miklu meiri birgðir eru til en eftirspurn er fyrir, og það er þetta, sem mun reynast stjórninni fullerfitt, eftir því sem frv. er nú.

Í öðru lagi sje jeg ekki, að reglugerð þessi nái tilgangi sínum að þessu sinni, því stofnun fjelagsskaparins var stórvægilegt atriði að hafa að baki sjer. Nú er ætlast til, að stjórnin taki að sjer söluna fyrir hvern einstakan mann og borgi honum. Útlendingar munu sjálfir reyna að útvega verð á sína síld, og sje jeg ekki, að neitt fyrirbjóði þeim það að selja síldina sjálfir. Alt verður því eins og það var áður. Jeg get sem sje ekki sjeð, að þetta frv. hafi nokkra þýðingu, eða að sje til nokkurra bóta að afgreiða slík lög frá Alþingi. Þess vegna býst jeg við, að jeg geti ekki greitt atkv. með frv. eins og það er nú orðið.