20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jón Baldvinsson:

Jeg játa það, að orðalag 3. gr. er dálítið óheppilegt. Jeg hygg, að þann skilning beri að leggja í ákvæði 3. gr., að meðalverð sje sett á hina seldu síld, og seljendum eða eigendum síldar afhent það meðalverð, en ekki verð þeirrar síldar, er selst í það og það skiftið, jafnóðum og hún selst. (Jak. M.: Hjer er það ekki tekið fram). Þegar frv. var breytt í hv. Ed., hafa verið tekin burt öll ákvæðin um Síldveiðifjelagið, en þar kom greinilega fram, að fjelagið átti að setja jafnaðarverð á selda síld. Landsstjórnin átti aðeins að afhenda Síldveiðifjelaginu andvirðið, jafnóðum og það kom inn, en fjelagið átti að hafa á hendi aðalskiftingu milli eigenda. Og ákvæði 3. gr. nú hljóta að vera bygð á sömu hugsun og fólst í þessum ákvæðum frv. áður en því var breytt. Jeg hefi átt tal um þetta við einn hv. þm. úr Ed., sem mikinn þátt átti í breytingum á frv., og ljet hann einnig þessa skoðun í ljós. Og þótt þessi orð sjeu vafasöm, þá getur stjórnin útvegað sjer skýra heimild í þessu efni með bráðabirgðalögum.

Um takmörkun á veiðinni er ekki minst neitt á hjer. En í 2. gr. er ákvæði um það, að stjórnin geti takmarkað, hvað mikið hún taki til sölu, og það er talað um, að hún geti sett reglugerð um útflutninginn, og þá hygg jeg, að hún geti hagað því svo, að hinir smærri verði ekki útundan. Og því hygg jeg, að sá ótti hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sje ástæðulaus. En hann er andvígur frv. og vill það feigt, og er sú aðstaða hans fullskiljanleg.

Að öllu athuguðu álít jeg rjett, að deildin afgreiði málið, í trausti þess, að stjórnin noti heimildina til að taka að sjer sölu síldarinnar.