21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

36. mál, þjóðjarðir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Þetta er í rauninni smámál, sem vonandi er að ekki veki miklar umræður.

Jeg byggi frv. þetta á reynslu þeirri, sem jeg hefi fengið þau 20 ár, sem jeg hefi verið umboðsmaður í þessu umboði. Reynslan er sem sje sú, að nú eru þegar seldar flestar jarðir umboðsins og hinar á förum, nema þær fáu, þar sem útmælingar eru á húsa og graslóðum, eða jarðirnar að öðru leyti sjerstaklega hugsaðar til opinberra nota. Tel jeg, þegar svo er komið, heppilegra að hafa sjerstakan umboðsmann, eins og áður, í staðinn fyrir að fela umboðið hreppstjórum, eins og nú er ákveðið.

Þetta segi jeg þó ekki af því, að jeg sje á móti hreppstjórum þeim, sem hlut eiga að máli, heldur vegna þess, að það er mín persónuleg skoðun, að heppilegra sje að hafa sjerstaklega valinn mann fyrir ríkisins hönd í þessu efni.

Hreppstjórar eru valdir af alt öðrum ástæðum og með öðrum skilyrðum og ætlunarverki en umboðsmenn ríkisins, og það er alls ekki lítilsvert, hvernig með umboð þetta er farið.

Auðvitað get jeg skilið, að hafa þyrfti undantekning þá, sem hjer er um að ræða, víðtækari. Jeg hefi heyrt það á einum umboðsmanni, sem einmitt á sæti hjer í deildinni, að líkt standi á í hans umboði.

Mjer finst rjett, að máli þessu verði vísað til allsherjanefndar. Fjárhagsnefnd er hvort sem er svo hlaðin störfum, að ekki virðist ástæða til að vísa því til hennar.