24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg hjelt, að jeg hefði talað svo ljóst, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gæti skilið það. Síður furðar mig á því, að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir ekki skilið mig, eða læst ekki gera það. Jeg hefi alls ekki í ræðu minni lagt dóm á það, hvort frágangssök væri að hleypa inn vörum í landið til þess að lækka dýrtíðina. Jeg hefi að eins sagt, að jeg áliti þá aðferð vandræðamál. Ræða mín gekk að eins út á að benda á verkefni nefndarinnar. Það væri meðal annars fyrir hana að meta, hvort tiltækilegra væri, að hleypa óþarflega miklu inn í landið af vörum, til þess að þrýsta niður verðinu á því, sem fyrir væri, eða verjast innflutningi sem mest á því, sem óþarft er, svo gjaldeyririnn hrykki, þótt það yrði þá örðugt að þrýsta niður dýrtíðinni.