19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

2684Frsm. (Jón Þorláksson):

Þessu frv. var vísað til viðskiftamálanefndar, og þegar nefndin var búin að hafa það nokkurn tíma til meðferðar, varð það að samkomulagi, að tilsvarandi nefnd í Ed. gengi með henni í eina nefnd, samvinnunefnd.

Það þótti vera sjerstök ástæða til þess, auk annars, að nefndin í Ed. tæki þátt í meðferð frv., að ef frv. fjelli í þessari deild, kæmi það ekki til Ed., og hún fengi þá ekki færi á að taka þátt í meðferð þess.

Eins og nál. ber með sjer, er það tillaga nefndarinnar, að frv. sje felt, og þar með skuli falla úr gildi bráðabirgðalög þau, er frv. átti að verða staðfesting á.

Það er einnig ætlast til, eða till. nefndarinnar ber að skilja svo, að viðskiftanefndin verði lögð niður samtímis, því að hún hefir starfað samkvæmt heimild bráðabirgðalaganna frá 8 mars 1920.

Ástæðurnar fyrir till. nefndarinnar eru að miklu leyti greindar í nál., en jeg skal leyfa mjer að gera nokkru nánari grein fyrir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir fengið.

Nefndin sneri sjer til viðskiftanefndarinnar og fjekk hjá henni skýrslu um öll þau leyfi til innflutnings, sem veitt hafa verið og synjað um.

Af þessari skýrslu er helst hægt að sjá það, hve örðugt eða jafnvel ómögulegt er að fá fastan grundvöll, sem hægt væri að byggja á veitingu eða synjun um innflutningsleyfi eða takmörkun þeirra vörutegunda, sem leyft væri að flytja inn. þessi leyfi ná til flestra vörutegunda, en annars má sjá á skýrslunni, að leyfður hefir verið innflutningur á flestum nauðsynlegum og ónauðsynlegum vörum, af þeirri orsök, að viðskiftanefndin áleit, að hún mætti ekki stöðva atvinnurekstur einstakra manna, sem gera má ráð fyrir að haldi honum áfram. Jeg hygg, að allflestir í nefndinni hafi verið samþykkir því, að ekki hefði verið rjett að ganga svo nærri neinni atvinnugrein, að menn yrðu að hætta rekstri hennar.

Nefndin fjekk skýrslu um verð á vörum erlendis og einnig skýrslur um núverandi smásöluverð á þeim tegundum hjer í Reykjavík. þessar skýrslur útvegaði nefndin til þess að gera sjer ábyggilega grein fyrir því, hvort vænta mætti verðfalls, ef nýjar vörur kæmu til landsins, með því verðlagi, sem nú er á þeim erlendis, og menn fengju að nota sjer það. Sem mælikvarða fyrir þennan samanburð valdi nefndin þær vörutegundir, er dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins er miðuð við, og þær, sem kaupgjald verkamanna í Reykjavík er miðað við, og eru þetta samtals 8 erlendar vörutegundir, nefnilega hveiti, rúgmjöl, kartöflur, kaffi, sykur, smjörlíki, kol, steinolía.

Nefndin sneri sjer til Verslunarráðsins og Sambands ísl. samvinnufjelaga og beiddist upplýsinga um verð á þessum vörutegundum, fluttum í hús á innflutningshöfn, og um áætlað tilsvarandi smásöluverð í Reykjavík.

Báðar stofnanirnar urðu vel við málaleitun nefndarinnar og spöruðu hvorki kostnað nje ómak til að útvega sem ábyggilegastar upplýsingar. það er enn fremur nokkur trygging fyrir, að þessar upplýsingar sjeu ábyggilegar, að þær eru fengnar á tveim stöðum, bygðar á sjálfstæðum athugunum beggja stofnananna. Þó er þess að gæta, að þessa dagana var gengi erlendrar myntar talsvert breytilegt frá degi til dags, og vöruverðið einnig nokkuð á hreyfingu, og þess vegna urðu skýrslumar um verð einnar og sömu vörutegundar stundum dálítið mismunandi.

Nefndin áleit það ekki rjett að taka einstök atriði úr skýrslunum upp í nál., en þykir rjett að gera grein fyrir aðalniðurstöðunni nú í framsögu málsins.

Meðalverðlækkun á þessum 8 vörutegundum er um 30 til 35% móts við verðlagið í júlí 1920. Einungis ein vörutegundin, rúgmjöl, hefir hækkað, hinar hafa allar lækkað, svo að nema mundi frá 14 til 60% í smásöluverði, og meðallækkunin sem sagt nokkuð yfir 30%.

Á þessu byggir nefndin, að rjett sje, að innflutningshömlurnar sjeu afnumdar, til þess að verðfallið fái að njóta sin óhindrað og engin tortrygni geti átt sjer stað meðal landsmanna um að svo sje. —

Nefndin hefir kynt sjer skýrslu verðlagsnefndarinnar um starf hennar til áramóta og einnig fengið upplýsingar um starf hennar síðan á áramótum, og hefir það aðallega beinst að hámarksverðlagningu á stöðum utan Reykjavíkur. Verðlagsnefndin getur þess í skýrslu sinni, að hún miði hámarksverðið á erlendri vöru við það markaðsverð, sem sje á vörunni erlendis og sanngjarnlega mætti krefjast að fram væri komið hjer tímans vegna. En þessi ákvörðun er erfið, einkum í kauptúnum úti um land, vegna þess, hve samgöngur eru óreglulegar og aðflutningar stopulir.

þar sem nefndin leggur til, að bráðabirgðalögin verði nú þegar feld úr gildi var henni ljóst, að rannsaka þurfti, hvort reglugerð um peningaviðskifti við útlönd, sem sett hefir verið samkvæmt heimild í bráðabirgðalögunum, mætti falla úr gildi án þess að neitt yrði sett í staðinn. Nefndinni er það ljóst, að ekki er unt nú sem stendur að leyfa ótakmarkaða sendingu póstávísana til útlanda, en hún hefir sannfært sig um, að póstávísanir má takmarka með einfaldri stjórnarráðstöfun, og þarf þá ekki að halda áðurnefndri reglugerð í gildi þess vegna, og þarf hún því ekki að standa fyrir afnámi bráðabirgðalaganna.

Nefndin var sammála um það, að engar ráðstafanir skyldu gerðar í þá átt, að heimildarlögin frá 8. mars 1920 fjellu úr gildi, en um það voru skiftar skoðanir, hvernig stjórnin ætti að nota þessa heimild. Það er mikið verk að rannsaka, hve mikið hefir verið flutt inn af óþarfavarningi síðustu ár, og síðan þarf að gæta að, hvort ástæða sje til að hindra innflutning hans vegna gjaldeyrissparnaðar. Það, sem fyrst verður á vegi manns, eru mjög misjafnir dómar um, hvað eigi að teljast óþarfi og hvað ekki. Nokkrir menn úr nefndum Ed. og Nd. hafa nú gert skrá yfir óþarfavörur, aðrar en þær, sem sjerstakur tollur hvílir á, og hefir verið inn flutt árið 1917 fyrir 200 þús. kr., en tollvörurnar verða að teljast flokkur út af fyrir sig. Aðrir nefndarmenn hafa viljað telja fleiri vörur, og hefir þeim talist upphæðin fyrir þær um 1 milj. kr., og getur verið, að sá hv. nefndarmaður, sem hefir skrifað undir með fyrirvara, hafi þá haft þetta sjerstaklega í huga.

Jeg nefndi áðan óþarfar vörur sem sjerstakan vöruflokk, og stendur svo á því, að nefndin hefir aðgætt allan innflutning á árunum 1915, 1916 og 1917 og flokkað þær niður. Í 1. flokk voru teknar þær vörur, sem telja verður ómissandi nauðsynjavöru, annaðhvort til lífsviðurværis, eða þá beint til rekstrar atvinnuveganna, og er ekki viðlit að hefta þær á nokkurn hátt. Þessar vörur nema meira en helmingi af vörumagninu, t. d. 1917 28 milj. af 43 miljónum. 2. flokkur er nauðsynjavörur, sem notaðar eru meira eða minna eftir því, hvernig kaupgetu landsmanna er háttað, og má þar nefna t. d. byggingarefni, því það er vitanlegt, að í góðum árum byggja menn frekara en þegar illa árar. Þessi flokkur taldist 1917 um 7 milj. þá er 3. flokkur, og eru það tollskyldar nautnavörur, að undanskildum sykri, sem talinn er í 1. flokki. Upphæð þessa flokks nam 1% milj.1915, en um 2 milj. 1916 og 1917. Þessar vörur eru flestum óþarfar, öðrum en landssjóði. Í 4. flokki eru aðrar óþarfavörur, og nam upphæð þeirra ekki meira en 200 þús. 1917, en 400 þús. hin árin, eða fyrir neðan 1% af öllum vöruinnflutningi. Skip eru talin utan flokka.

Eftir þessari skiftingu er flutt inn 1917 fyrir 36 milj. nauðsynjavörur, en að eins fyrir 2 eða 2,2 milj. ónauðsynlegar vörur, og af þeim eru 9/10 tollskyldar.

Eins og nál. sýnir, viljum vjer leggja það á vald stjórnarinnar, hvort hún notar heimildina eða ekki. Jeg skal svo ekki tala meira fyrir nefndarinnar hönd, en ætla að fara nokkrum orðum um þetta mál frá mínu sjónarmiði, og getur verið, að nefndin sje mjer ekki sammála þar. Það skrifast eingöngu á minn reikning. Jeg lít svo á, að ef þess er þörf, að landsmenn leggi eitthvað á sig til gjaldeyrissparnaðar, þá sje ekki annað fyrir en að spara tollskyldar óþarfavörur, svo sem kaffi, tóbak, súkkulaði og vínföng. Þetta er alt óþarfi og þó ýmsir hafi viljað telja t. d. kaffi nauðsynjavöru, þá er öllum vitanlegt, að svo er ekki. Vatnið og sykurinn, sem í kaffinu er, getur verið nauðsynlegt, en það gerði ekkert til, þó kaffið sjálft vantaði; að því væri að eins heilsubót. En hitt er satt, að mönnum þykir óþægilegt að fara á mis við kaffi og vilja ef til vill ekki leggja það á sig. Jeg vil ekki staðhæfa, að ástandið sje svo alvarlegt, að þjóðin þurfi að leggja hart að sjer, því hún gerir það mjög ófús. En samt verð jeg að halda því fram, að nær hefði verið að banna innflutning á þessum vörum heldur en mörgu öðru, sem viðskiftanefndin hefir bannað. Jeg get nefnt barnaleikföng, og eru vitanlega engar upphæðir, sem til þeirra fara, en það er harðneskja að meina börnum leikföng, en leyfa fullorðnum ótakmarkað kaffi og tóbak. Það mætti halda áfram að telja upp, en jeg sje þess ekki þörf. Þetta er að eins mitt álit, en ekki sagt fyrir nefndarinnar hönd.