19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. (J. Þ.) hefir gert grein fyrir afstöðu nefndarinnar, og hefir hún orðið á einu máli um það að fella úr gildi bráðabirgðalögin, sem takmörkun innflutnings hefir aðallega grundvallast á. En um það var nokkur ágreiningur innan nefndarinnar, hvort nema eigi nú úr gildi allar innflutningshömlur, en niðurstaðan varð þó sú, eins og nál. ber með sjer og hv. frsm. (J. Þ.) hefir lýst, að leggja til, að lögin frá 8. mars í fyrra standi, og láta stjórnina ráða, hvernig hún beitir þeim, innan þeirra takmarka þó, að eigi sje heftur innflutningur á öðru en óþarfavörum. Jeg er einn meðal þeirra, sem ekki vilja sleppa öllu lausu þegar í stað, heldur stefna í þá átt, sem lögin frá 8. mars benda til. Það var tilætlunin með þeim lögum að takmarka innflutning á óþarfavarningi. Þetta er svo skýrt tekið fram, að það verður naumast misskilið, en þó hefði ekki veitt af að búa til sjerstaka skrá yfir þessar vörur, því heimildin hefir verið þanin út yfir miklu víðara svið, og hefir verið látin ná til varnings, sem enginn neitar að nauðsynlegur sje. Þetta hefir orðið tvíeggjað sverð, og hefir það vegið í þá átt, að halda uppi vöruverði í landinu; verðfall á erlendum markaði hefir ekki borist hingað fyr en seint og síðar meir. Viðskiftanefndin, sem að þessu hefir unnið, er ekki í samræmi við vilja þingsins, sem lögin setti. Það heyrðust að vísu raddir um það, að slík nefnd mundi nauðsynleg, en þó voru fleiri, sem mæltu í móti. En það þýðir ekki að þrátta um það, sem liðið er og ekki verður við gert. Nefndin hefir verið skipuð, en hún hefir ekki gengið nógu röggsamlega fram. Þrátt fyrir þessar hömlur hefir verið flutt inn mikið af óþarfa, sem hefði þurft að hefta með öllu. Jeg hefði helst kosið, að þær vörur, sem átti að banna, hefðu verið taldar upp í lögunum sjálfum, en til samkomulags við nefndina hefi jeg gengið inn á að láta lögin frá 8. mars standa óbreytt. Það má vinna þetta upp með því að telja þessar vörur upp í sjerstakri reglugerð. Það er altaf teygjanlegt orð, óþarfavara. Það fer eftir ástandinu í hvert skifti, en jeg lít svo á, að heldur eigi að ganga lengra en skemra í því efni. Jeg hefi farið yfir innflutning áranna 1916 og 1917 og skrifað upp hjá mjer þær vörutegundir, sem jeg álit að stjórnin eigi að banna innflutning á. Þær vörur eru þessar: Niðursoðinn fiskur, niðursoðið kjöt, niðursoðnir ávextir og grænmeti, sultaðir ávextir og grænmeti, kex og kökur; lakkrís, brjóstsykur og konfekt, ilmvötn, epli og perur, appelsínur, önnur aldini, þurkaðir ávextir, hnetur og kjarnar, cigarettur, silkivefnaður, kniplingar, glysvarningur, lifandi blóm, myndabækur, kort og brjefspjöld, marmari, gimsteinar, aðrir steinar, myndir úr gibsi og marmara, gull- og silfurmunir, plettmunir og glysvarningur, hljóðfæri, vasaúr, klukkur, þurkað grænmeti, myndarammar (listar), döðlur, kandiseraðir ávextir, barnaleikföng.

Jeg hefði haft tilhneigingu til að ganga lengra, og jeg get verið samþ. hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að auk þess, sem sparnaður sje nauðsynlegur, vegna fjárhagsástandsins, sje hann einnig góður uppeldisskóli fyrir þjóðina; hún hefði gott af því að læra að neita sjer um ýmislegt, sem hún þykist varla geta án verið nú. En jeg er vonlaus um, að mjög róttækar breytingar frá því, sem jeg hefi hugsað mjer, nái fram að ganga, því margir álíta skaðlegt að banna eða takmarka innflutning á ýmsu því, er jeg nefndi. Jeg verð að álíta, að með því að banna og takmarka innflutning á þeim vörum, sem jeg nefndi, sje margt unnið, en engu tapað. Það eru ekki litlar upphæðir, sem fara árlega í þessar vörur, 1,600,000 kr. 1916, nokkuð minna 1917, en þó yfir 1 miljón. En það er aðgætandi, að þessi ár var flutt inn með minna móti, og 1918 og 1919 hefir innflutningurinn orðið margfalt meiri. Þó innflutningur þessa varnings væri bannaður, tapar ríkissjóður ekki tolli svo neinu næmi. Það yrði aðallega af vindlingum, en jeg verð að telja slíka ástæðu lítils virði. Það getur verið rjett, að ilt yrði að hafa hönd í bagga með þessu, og er slíkt bann ekki einhlítt, nema vel sje fylgt í framkvæmdinni.

Jeg tel viðskiftanefnd ekki nauðsynlega til slíkra framkvæmda, enda munu dagar hennar taldir.

Að endingu vil jeg brýna það fyrir stjórninni að taka föstum tökum á þessu máli og kveinka sjer ekki, þó það komi ef til vill í bága við hagsmuni einstakra manna. Fyrst og fremst ber að líta á hagsmuni þjóðfjelagsheildarinnar, og ef hagsmunir annara rekast á hana, verða þeir að lúta. Með þessum skilningi á því, hvernig heimildarlögin frá 8. mars sjeu notuð, get jeg gengið inn á, að málið sje leitt til heppilegra úrslita á þann hátt, sem nefndin leggur til.