19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2689)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Jeg hjelt, að það mundi nægja, að einn úr hverjum flokki tæki hjer til máls. En þar sem 4 úr nefndinni hafa nú þegar talað, þá vænti jeg þess, að það verði ekki illa tekið upp fyrir mjer, þótt jeg, sem einn nefndarmannanna, segi nokkur orð.

Jeg þarf engu við að bæta það, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir sagt. Það er að eins um þann ágreining, sem varð innan nefndarinnar um það, hvort ljetta skyldi af öllum hömlum eða ekki, sem jeg vil minnast á.

Í samvinnunefnd voru 7 af 10 ásáttir um að sleppa öllum hömlum, og ákvæðið um að leggja á vald stjórnarinnar, hvort hún notaði heimildina frá 8. mars eða ekki, var samþ. með 7: 3 atkv. Tveir þeirra þriggja manna, sem ekki voru meiri hl. nefndarinnar fyllilega sammála í þessu efni, eru hjer í deildinni, hv. þm. Borgf. (P. O.) og hv. þm. Ak. (M. K.), og hafa lýst skoðun sinni á því máli.

Jeg lít svo á, og get skírskotað til upplýsinga hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að þetta, sem til mála getur komið að takmarka, er svo lítið, að það getur ekki borgað sig að elta ólar við það. Upphæðin, sem hjer ræðir um, er frá 240,000–480,000 kr. og er, eins og sjá má, að eins örlítill partur af neyslu okkar yfirleitt. Hitt getur verið álitamál, hvernig skoða á tollvörurnar í þessu sambandi, en jeg býst þó ekki við, að það næði samþykki hjer í hv. deild að takmarka innflutning á tollvörum yfirleitt. Af innflutningi þeim, sem takmarka á, hefir fjöldi manna atvinnu, og er það eflaust viðsjárvert, frá hvaða sjónarmiði sem er, að takmarka eða kippa fótunum undan atvinnufrelsi manna. En upp úr hinu legg jeg þó meira, að ef á að takmarka eða banna innflutning á vörum, þá mun það leiða til hins sama og með bannlögin, sem sje til ólöghlýðni, og jafnvel meira flytjast inn af hinni bönnuðu vöru eftir en áður, enda margt af því, sem banna á innfl. á, þannig vörur, sem hægt er að smygla inn áhættulítið. — (P. O.: Þetta er ljót lýsing á kaupmannastjettinni!). Jeg á ekki einungis við kaupmannastjettina, heldur við alþjóð manna, því það er alþjóðarstaðreynd, að hverskonar þvingunarlög espa til ólöghlýðni og hverskonar smyglunartilraunir sigla í kjölfar þeirra.

Takmörkun sú á innflutningi, sem hjer um ræðir, er svo lítil, að engu munar á ársinnflutningi vorum, og það jafnvel þótt till. hv. þm. Borgf. (P.O.) næði fram að ganga, en auk þess ber að gæta þess, að í báðum tilfellunum er fjöldi vörutegunda, sem ómögulegt er án að vera og undanþágur verður að gera um.

Mjer datt í hug, þegar hv. þm. Ak. (M. Kr.) sagði, að einhverjar hömlur yrðu þó að vera, að „litlu verður Vöggur feginn“. Jeg sje ekki, frá hans sjónarmiði, neina ástæðu til þess að halda í þessa litlu taug, sem eftir er, þar sem hann nú er búinn að ganga frá þessu lífslögmáli sínu, að höft sjeu á sem flestu, svo landsverslunin geti orðið sem yfirgripsmest, á kostnað frjálsrar samkepni. — Jeg lít þess vegna svo á, og það er áskorun mín til stjórnarinnar, að sú heimild, sem getið var um í nál., viðvíkjandi lögunum frá 8. mars, verði ekki notuð, enda þótt samþykt verði.

Hv. þm. Ak. (M. K.) vildi fresta endanlegum úrskurði málsins til mánudags eða þriðjudags, þar sem í dag eða á morgun væri von á manni frá útlöndum, er kynt hefði sjer þetta mál þar, og hefði því ef til vill einhverja till. að gera í því efni. Jeg hefi mikla virðingu fyrir dugnaði og framsýni þess manns, — jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. eigi við Kaaber bankastjóra — en jeg held ekki, að hann muni hafa neitt það í pokahorninu, sem gæti breytt nokkru hjer. Frekar geri jeg ráð fyrir, að hann hafi orðið fyrir áhrifum af þeirri stefnu, sem nú er að ryðja sjer til rúms erlendis, sem er sú, að ljetta af öllum viðskiftahömlum. Jeg sje þess vegna ekki, að hjer sje nokkur ástæða til frestunar. Frekar væri að vænta, að maður þessi gæti gefið nokkrar upplýsingar fjárhagslegs efnis.

Um viðskiftanefndina er kannske ekki rjett að tala hjer, þar sem nú er afráðið hvað um hana verður, þótt ástæða væri til að minnast á afrek hennar opinberlega. En hún á sjer hjer engan málsvara, svo jeg sleppi því.

En jeg vona, að þessi deild og hæstv. stjórn skilji það, að jeg er alveg á móti því, að þessu ákvæði í nál. verði framfylgt.