21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jakob Möller:

Jeg hjelt ekki, að þetta mál, sem nú liggur fyrir, mundi vekja svo miklar umræður, úr því sem komið er, að samkomulag virðist orðið um að fella frv. Háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) gat vel geymt sjer þessa ræðu sína þar til það mál verður tekið fyrir, sem ræða hans snerist um. Háttv. þm. hafa víst sjeð nál. viðskiftanefndar. Fyrsta niðurstaða hennar er sú, að innflutningshöft á nauðsynjavörum verði feld úr gildi, en þar er ekki gerð nein ákveðin tillaga um það, hvort innflutningsbanni á óþörfum varningi skuli framfylgt framvegis, eða þau höft látin niður falla líka.

Jeg skal þá að eins snúa mjer að innflutningshöftunum á nauðsynjavörum, og hvernig nefndin ætlast til að þau verði afnumin. Jeg fellst á þá niðurstöðu nefndarinnar, að með því að fella bráðabirgðalög frá 15. apríl 1920 úr gildi sje fyrst og fremst viðskiftanefndin úr sögunni, en þá einnig um leið öll innflutningshöft á nauðsynlegum vörutegundum. Og jeg held því fram, að samkv. lögum frá 8. mars 1920, sem þá verða ein eftir, sje að eins heimilt að hefta innflutning á ákveðnum vörutegundum, sem vel er hægt að komast af án, sem sje einungis „óþörfum“ vörutegundum. Hvernig stjórnin hefir að undanförnu hagað sjer með framkvæmd þeirra laga, liggur ekki fyrir að ræða hjer um. Hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) talaði um í byrjun þessarar umr., að viðskiftanefndin hjeldi áfram að starfa, hvað sem upphafning þessara laga liði. En það get jeg ekki fallist á að geti átt sjer stað, og veit ekki, hvernig hún getur þá starfað áfram, í skjóli hvaða lagaheimildar. Jeg geri nú ráð fyrir því, að nú sje nokkurn veginn víst orðið um afdrif innflutningshaftanna, svo að ekki þurfi að eyða miklum tíma í deilur út af sjerstöðu háttv. þm. Ak. (M. K.) í viðskiftamálanefndinni. Jeg þykist hafa skilið hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) rjett að stjórnin sætti sig við þessi úrslit málsins, að viðskiftanefndin og þar með innflutningshömlurnar á öllum nauðsynlegum vörutegundum verði numdar úr gildi, og að um ágæti þeirra þurfi þá ekki að deila lengur við hæstv. stjórn. Þó get jeg ekki stilt mig um að láta þess getið, að jeg á erfitt með að skilja afstöðu þess hæstv. ráðherra (P. J.) í þessu máli, því eins og kunnugt er, talaði enginn af meira móði gegn afnámi innflutningshaftanna fyrir litlu síðan en einmitt hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.), og finst mjer þessi veðrabrigði alleinkennileg, svo ekki sje fastar að orði kveðið. — Jeg mun greiða atkv. með afnámi laga þessara, er hjer er rætt um að nema úr gildi, en jeg er ekki ráðinn í því að svo stöddu, hvort jeg greiði atkvæði með innflutningsbanni á vissum „óþarfa“ vörutegundum, enda liggur það ekki fyrir að svo stöddu, og væri æskilegt, að háttv. þm. væru ekki að „tefja tímann“ með löngum umræðum um þá hlið málsins að svo stöddu.