21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Enda þótt kastað hafi verið til mín nokkrum hnútum í umræðum hjer í deildinni, þá skal jeg þó ekki tefja umræðurnar þess vegna. Það er vegna ummæla samnefndarmanns míns, háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að jeg stend upp. Það varð að samkomulagi í nefndinni að leggja á vald stjórnarinnar, hvort hún notaði lögin frá 8. mars eða ekki, en sjö af tíu nefndarmönnum voru þeirrar skoðunar, að stjórnin skyldi ekki nota heimildina, enda þótt samþykt yrði. Háttv. þm. (J. Þ.) er 7. maður í nefndinni, sem aðhyltist þessa skoðun innan nefndarinnar, og það er því ástæðulaust nú eftir á fyrir háttv. þm. (J. Þ.) að ætla okkur öðrum nefndarmönnum að binda svo hendur okkar, að við getum ekki greitt atkv. eftir því, sem við álítum rjettast og eftir því, sem við höfum haldið fram innan nefndarinnar.

Það er nú búið að ræða þetta mál svo mikið, að vel mætti fara að ganga til atkvæða, og skal jeg því láta vera að svara þeim lítilfjörlegu hnútum, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) hafa kastað til mín. En það, sem þeir hafa sagt um kaupmannastjettina, er af lítilli sanngirni og minna viti sprottið, og væri ef til vill sjerstök ástæða fyrir mig sem kaupsýslumann að svara því, en þar sem ummælin eru á svo litlum rökum bygð og verslunarstjettin á hinn bóginn stendur jafnrjett uppi eftir sem áður, get jeg fyrir hönd stjettarinnar látið mjer nægja að lýsa þau „ómerk ómagaorð“.