21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Eiríkur Einarsson:

Mjer virðist niðurstaða sú, sem viðskiftamálanefndin hefir komist að í þessu máli, ekki vera svo heil sem skyldi. Þess var líka að vænta, þar sem ýmsir menn hafa þar komist að sömu niðurstöðu um þau atriði, er þeir hafa ólíkan vilja um.

Jeg vil, að heimildir handa landsstjórninni til að banna og takmarka innflutning á vörum, sbr. lög 8. mars 1920, verði feldar úr gildi, af því að þær mundu verða alveg ónógar og jafnvel þýðingarlausar. Það er mín skoðun, að annaðhvort eigi að banna innflutning á óþörfum varningi, þeim er komist verður af án, banna hann algerlega með lögákveðinni aðgreiningu, og láta það bann ná nokkuð langt, en hinsvegar leyfa skilyrðislausan innflutning á öðru.

Áframhaldandi heimild handa landsstjórninni yrði henni einungis til ásteytingar, og síst líkur til, að hún nyti sin í þessari takmarkanastarfsemi, er vopnin eru tekin úr höndum hennar, er hún hefir þó átt kost á, samkvæmt þeim reglum, er nú skulu úr gildi numdar. Það er á það að líta, að þótt landsstjórnin hefði umrædda lagaheimild, mundi altaf geta orðið reiptog um, hvað leyft skyldi eða ekki. T. d. má gera ráð fyrir, að hjá hæstv. stjórn kæmi í ljós samskonar brjóstgæði, ef fátækur atvinnurekandi, svo sem konfekt eða sígarettukaupmaður, ætti í hlut, eins og orðið hefir vart hjer í deildinni hjá hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), er hann barði sjer á brjóst fyrir hönd kaupmannastjettarinnar, er kynni að verða svift atvinnu með sölubanninu. Af þessum ástæðum mun jeg, eftir því sem þessi málefni koma í ljós, greiða atkvæði mitt með því, að innflutningshömlurnar verði algerlega úr gildi numdar, eins og þær eru nú, með heimildum handa stjórninni, þangað til ekki stendur lengur steinn yfir steini í þeirri byggingu, en algert lögbann sett í staðinn.

Þeir, sem halda fram sparnaðarkenningunni, verða að sýna það í verkinu, að þeim sje alvara. Hið háa Alþingi verður að sýna það með ákvörðun sinni, að það vilji vernda þjóðina fyrir eyðslu á því, er án má vera, og spara með því gjaldeyri einstaklings og almennings. Þess vegna vildi jeg, eins og á var drepið, ekki heimila stjórninni að banna, heldur lögbanna innflutning á óþarfanum. Það mintist einhver á niðursoðna mjólk. Vil jeg í því sambandi geta þess, að framtakssamir bændur í þjettbýlli sveit austanfjalls hafa stungið upp á því, að reyna mjólkurniðursuðu. Væri sú uppástunga verð athugunar, og í framkvæmdinni gæti hún leitt til þess, að banna mætti innflutning á mjólk, smám saman. Líkt mætti segja t. d. um ýmsar vefnaðarvörur. Gæti þar vel komið til greina algert bann, annars vegar með tilliti til þess, að í landinu eru vitanlega fyrirliggjandi miklar birgðir af þeim varningi, og hinsvegar eigum við, sem aðrar þjóðir, að kosta kapps um að vernda og auka iðnað okkar sem best verður. Stendur okkur þar næst að auka ullariðnaðinn, bæði með því, að hlynna að verksmiðjum þeim, er fyrir eru, og stofna nýjar. Flutti jeg á síðasta þingi till. til þál., þar sem skorað var á landsstjórnina að styðja sem best að framkvæmd þeirra mála. — Þessi þjóð þarf ætíð að hafa það hugfast, sem aðrar þjóðir, að velmegun hennar hlýtur mjög að byggjast á því, að hún sje bjargálna, hafa meira til aflögu en það, er hún þarfnast annarsstaðar frá. Það verða menn að hafa fyrir augum, er rætt er um verslunarhömlur og aðflutning á óþarfa varningi.