21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get tekið undir margt af því, sem háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, og eins það, sem háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, um lögin 8. mars 1920, sem sje, að alt verður á huldu, ef eigi fer fram atkvgr. um þau lög. En það er aftur misskilningur, ef háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) meinar, að hægt sje að greiða atkvæði um þau lög nú, því að þau eru alls ekki á dagskrá.

Ef fara á eftir nál., þá er stjórninni alveg í sjálfsvald sett, hvort hún notar heimildina til innflutningshafta eða ekki. Mjer þykir því undarlegt, að nefndarmenn skuli allir hafa staðið hjer upp og lýst skoðun sinni á þessu, og er langt frá, að allir sjeu þeir sammála. En ekki getur stjórnin farið eftir skoðun allra. Best væri fyrir stjórnina, að atkvgr. færi fram um 1. frá 8. mars f. á. Þau heimila að takmarka eða banna innflutning á óþarfa varningi. Það varð svo ofan á að takmarka en banna ekki alveg, og held jeg, að það hafi verið rjett aðferð. En ástæðan til þess, að höftin voru látin ná til allra vara, var sú, að nefndin, sem skipuð var, taldi sjer ekki fært að hafa íhlutun með innflutningi, nema hún hefði allar vörur.

Jeg skal viðurkenna fúslega, að síðan í fyrra hafa miklar breytingar orðið, sem snerta þessar ráðstafanir. Vörur hafa fallið og kaupgeta minkað og ástæður allar breytast altaf meira og meira í það horf, að síður þarf innflutningshafta. Þess vegna get jeg ekki fallist á orð hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að það sje undarlegt, að stjórnin skuli geta sætt sig við nál.

Frsm. nefndarinnar (J. Þ.) sagði, að óhætt væri að afnema viðskiftanefndina strax og farið væri að setja reglugerðina, ef ekki væri von á skipum. En það er hægt að panta vörur, þótt ekki sje von á skipum, og það er hart að banna þeim að flytja inn vörur, sem pantað hafa meðan á samning reglugerðarinnar stóð.

Það er rjett, að höftin í Sviss sjeu til varnar iðnaði landsins. En það er þó ekki ósvipað og hjá okkur, því við reynum að nota það af okkar eigin vöru, sem fallið hefir utanlands.

Jeg er hræddur um, að það verði fáar vörur, sem alveg er hægt að banna án undanþáguheimildar, og því verði að setja í reglugerð undanþáguheimild.

Annað er líka, sem mælir á móti aðflutningsbanni vissra vörutegunda, og það er, að farið verði í kring um ákvæðin. Úr því geri jeg þó eigi svo mikið.

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) nefndi niðursoðna mjólk sem dæmi upp á eina vörutegund, er komið gæti til greina að banna innflutning á. Jeg held það geti eigi komið til mála, eins og stendur; hitt væri annað mál, ef skriður kæmist á þær framkvæmdir, sem háttv. þm. (E. E.) gat um, að komið hefðu til tals austanfjalls, að sjóða niður mjólk. En þangað til er innflutningur mjólkur nauðsynlegur, því að bæði hjer og annarsstaðar í kaupstöðum og sjávarþorpum er fólk neytt til þess að nota útlenda mjólk. Vil einnig geta þess í sambandi við innlenda ullariðnaðinn, sem hann drap á, að það var með tilliti til þingsályktunar hans á síðasta þingi, að Álafossullarverksmiðjunni voru lánaðar 100 þús. krónur til vjelakaupa síðastliðið ár.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að ef þingið lætur heimildarlögin frá 8. mars 1920 haldast óbreytt, þá verður stjórnin að telja sig einungis bundna af því, sem í nefndarálitinu stendur, en ekki við tillögur eða skoðanir einstakra þingmanna, að svo miklu leyti, sem þær ekki falla saman við það.