21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Þorleifur Guðmundsson:

Það er að eins örstutt athugasemd út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hann sagði, að jeg hefði getað sparað mjer ummæli mín. Satt er það að vísu, að jeg gat það með því að þegja, en jeg vildi láta það í ljós, að mjer þætti nefndarálitið loðið, og því þörf fyrir stjórnina að fá að vita ákveðinn vilja þingsins.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagðist ekki taka til greina þau ummæli, að verslunarstjettin væri of mannmörg, nema sjer væri sýnt það með tölum, að hún væri tiltölulega mannfleiri en verslunarstjettir annara þjóða. Jeg var nú ekkert að bera hana saman við verslunarstjettir annara þjóða, sagði að eins, að hún mundi of mannmörg, borið saman við framleiðendurna, en jafnframt er þess að gæta, að hún átti eigi að vera tiltölulega jafnfjölmenn og verslunarstjettir þeirra þjóða, sem eingöngu eða aðallega lifa á verslun, því við erum framleiðslu en ekki verslunarþjóð. Sami háttv. þm. (J. Þ.) sagði einnig, að það væri ekki vel viðeigandi að ráðast á eina stjett þjóðfjelagsins. Þetta kann nú að vera fögur hugsjón, en það ber ekki að hlýða henni, því að ef einhver stjett er óþörf, þá á að uppræta hana. Jeg á hjer auðvitað ekki við alla kaupmenn, heldur aðeins glyssalana; handa þeim væri nóg annað þarfara að starfa, ef þeir bara fengjust til að fara út úr glysbúðunum. — Jeg er ekki að særa þá út með þessum orðum, en jeg vona, að þeir skriði út þegar sólin skin, svo að jeg taki mjer í munn ummæli, sem hæstv. forsrh. (J. M.) hafði eftir bóndanum að austan.

Þá vildi jeg svara háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) nokkru. Hann sagði, að ræða mín hefði verið nokkuð þokukend. Jeg veit nú ekki, hvernig þokan kann að vera á Vestfjörðum, en jeg þóttist svara skýrt þeim orðum hans, sem hann mælti á síðasta fundi, að glyssalarnir og smákaupprangararnir mundu verða öðrum til byrði, ef þeir mistu atvinnu sína. Jeg sagði í fyrri ræðu minni og segi enn, að það er betra að styrkja þá beinlínis en að þeir selji eintóman óþarfa. En þess þarf ekki með; þeir geta unnið. — Og þeir koma bráðum og fara að vinna, því „neyðin kennir naktri konu að spinna.“

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að sjer hefði fundist rjettara að framkvæma lögin frá 8. mars 1920 svo, að innflutningur væri takmarkaður en ekki bannaður á einstökum vörutegundum. Jeg er gagnstæðrar skoðunar, því kaupmannastjettin á örðugra aðstöðu, ef hún er í óvissu og veit eigi, hvað sjer mun leyft og hvað eigi.

Jeg vona því, sökum þess að hæstv. fjrh. (M. G.) sagðist fara eftir því, sem deildarmenn vildu, að hann fari þá helst eftir mínum vilja.