21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jón Baldvinsson:

Engum, sem las nefndarálitið, mun hafa blandast hugur um það, að skoðanir mundu hafa verið skiftar innan nefndarinnar. Enda var um orðalag nál. þvarg mikið, þó að menn vildu eigi kljúfa nefndina, og í raun og veru er þetta álit bæði meiri og minni hlutans. Og að minsta kosti veit jeg til þess, að bæði jeg og hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) ætluðumst ekki til, að stjórnin notaði heimildarlögin frá 8. mars, en þegar jeg heyrði hæstv. atvrh. (P. J.) taka upp skoðun 3ja minni hluta mannanna, þá mun jeg ekki skorast undan því að greiða atkvæði með afnámi heimildarlaganna frá 8. mars 1920. Jeg er þeirrar skoðunar, að lítill gjaldeyrir sparaðist, þó bannaður yrði innflutningur sárfárra vörutegunda, sjerstaklega þegar litið er til þess ástands, sem nú er, þar sem bæði gjaldþol manna er mjög lítið, kaupmenn varkárir að gera innkaup og auk þess fyrirliggjandi í landinu talsverðar birgðir af þeim vörutegundum, sem bannaðar mundu verða. Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að það er erfitt fyrir stjórnina að átta sig á skiftum skoðunum deildarmanna um þetta mál, og því tel jeg rjett, að atkvgr. sje látin fara fram um heimildarlögin frá 8. mars, því að þá er gengið hreint til verks og stjórnin leyst úr vanda.