21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jakob Möller:

Hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) má ekki misskilja orð mín, jeg meinti að eins, að hann hefði getað geymt ræðu sína sökum þess, að hjer lá ekki fyrir, hvort fallið skyldi frá öllum viðskiftahöftum, og því taldi jeg rjett að takmarka umræðurnar að þessu sinni og fresta öllum umræðum um innflutningshöft á óþörfum vörum. En nú hafa umræðurnar, að vísu hjá fleirum, snúist um ónauðsynlegu vörurnar, og í raun og veru mætti ganga svo frá málinu nú þegar, að því væri lokið að fullu, t. d. með því að samþykkja svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Um leið og deildin lýsir því yfir, að hún telur rjett að afnema þegar í stað öll innflutningshöft, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá.

Ef þessi dagskrá væri samþykt, þá mundi stjórninni auðvitað eigi koma til hugar að beita heimildarlögunum frá 8. mars 1920. En sökum þess, að jeg býst við, að háttv. þingdeild þykist eigi viðbúin að greiða atkvæði um þetta nú, ber jeg hana eigi fram að þessu sinni, en leyfi mjer aftur á móti að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Um leið og deildin lýsir því yfir, að hún telur rjett að afnema þegar í stað öll innflutningshöft á nauðsynlegum vörutegundum, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá.

Þessi dagskrá, sem jeg hefi borið hjer fram, lítur beint að því, sem hjer liggur fyrir, afnámi innflutningshafta á nauðsynlegum varningi, og er í samræmi við nál. og till. meiri hl. viðskiftamálanefndar. Verði hún samþykt, má hæstv. stjórn verða það fullljóst, að það er vilji deildarinnar, að engin takmörkun sje gerð á innflutningi vöru, sem nauðsynleg er til notkunar og án tillits til þess, hversu mikið kann að vera fyrirliggjandi af vörunni í landinu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið út í einstök atriði í ræðum háttv. þm.; þó er það eitt atriði í ræðu hæstv. fjrh (M. G.), sem jeg vildi athuga lítillega. Hann sagðist eigi geta fallist á það, að stjórnin hefði snúist í þessu máli, þó að hún nú væri annarar skoðunar í því en fyr, sökum breyttra kringumstæðna. Jeg held, að kringumstæðurnar hafi nú lítið breyst frá þingbyrjun. Þá sagði sami hæstv. ráðh. (M. G.), að nauðsyn bæri til að takmarka innflutninginn sökum gjaldeyrisskortsins. Stjórnin hefir því, held jeg, breytt nokkuð skyndilega skoðun í þessu máli, og mjer er nær að halda, að ef þingið hefði litið öðrum augum á þetta mál, þá hefði afstaða stjórnarinnar líka verið nokkuð önnur, Hitt er ei nema eðlilegt, þó að hún kjósi að láta það líta svo út sem þessar breyttu kringumstæður sjeu eina orsökin.

Sami hæstv. ráðherra (M. G.) mintist líka á innflutningshöftin í Sviss, og taldi þau gerð í líkum tilgangi og hjer. En því fer mjög fjarri. Svisslendingar banna innflutning til þess að vernda innlendan iðnað, beinlínis til þess að bægja frá ódýrari vörum en framleiddar eru í landinu sjálfu. Hefði nú stjórnin hjer framkvæmt innflutningshömlurnar með tilliti til þess að fá þjóðina til þess að notast meir við sitt, þá mætti segja, að skyldleiki væri á millum. En það er svo langt frá því, að stjórnin hafi gert þetta, því hjer hefir ætíð verið mikið af erlendri matvöru, og skömtun ekki reynd nema á 2 vörutegundum, og sem auk þess varð þýðingarlaus.

Jeg fæ því eigi sjeð, hvað líkt er, þar sem annarsvegar, í Sviss, er bannaður innflutningur útlendrar vöru, sökum þess, hversu ódýr hún er, af því að innlendu atvinnuvegunum stafar hætta af samkepninni; hjer halda innflutningshöftin uppi dýrtíðinni svo mjög, að framleiðslan fær eigi borið sig. Verðfall erlendrar vöru er, með öðrum orðum, okkur til bjargar, en Svisslendingum hættulegt. — Jeg skil eigi samanburðinn. — Hæstv. forsrh. (J. M.) gat einnig um þessi innflutningshöft Svisslendinga. Mjer þykir sennilegt, að hann hafi einungis lesið fyrirsögnina, því ella er varla að ætla, að hann hefði varpað þessu fram.

Að svo mæltu afhendi jeg hæstv. forseta hina rökstuddu dagskrá, sem jeg las upp áðan.