21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) gengur út frá því, að stjórnin hafi slegið undan af „praktískum“ ástæðum, en ekki af öðrum ástæðum. En háttv. þm. (Jak. M.) getur ekki fundið þessum orðum sínum neinn stað í fjárlagaræðu minni, því að í henni stendur einmitt um innflutningshöftin, að þeim verði að halda áfram „með eða án breytinga“, og það bendir til, að á það var minst, að breyta innflutningshöftunum eitthvað. Annars held jeg, að of miklar vonir sjeu bygðar á verðfallinu framvegis, og ekki trúi jeg á lága verðið, þótt innflutningshöftunum verði ljett af.

Um dagskrá háttv. þm. (Jak. M.), þá stendur mjer á sama, hvort hún er samþykt eða till. viðskiftamálanefndarinnar. Þó má segja, að með því að samþykkja dagskrána sje farið enn vægilegar að stjórninni, og ber líklega að taka þetta þannig, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sje nú að verða einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar.