21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2707)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Kristjánsson:

Það eru aðallega tveir háttv. þm., sem hafa gefið mjer tilefni til að standa upp. Háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) sagði, að jeg hefði gengið frá fyrri skoðun minni, og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði um, að það hefði verið óheilbrigt af mjer, að hafa ekki klofið nefndina. Þessi ummæli háttv. þm. eru töluð hreint og beint út í bláinn. Háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) ætti að vera kunnugt um, að jeg hefi aldrei gengið frá skoðun minni í nefndinni. Að illa tókst, má mikið kenna því, að nefndin var óheppilega skipuð, þar sem helmingur var með og helmingur móti, og sjerstaklega af því, að Ed.-nefndin var engu betri og hafði því, að mínu áliti, ekki bætandi áhrif á málið. Þó hafa sumir reynt að hafa sem best áhrif, og einmitt þess vegna verður ekki eins mikið tjón af ákvörðunum þingsins og ella hefði orðið.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) er óvanur þingstörfum, og jeg vona, að það stafi af því, ef hann heldur að það sje góður þingsiður að kljúfa nefndir strax og einhver ágreiningur verður. Sjerstaklega væri slíkt óheyrilegt á þingi eins og þessu, þar sem má segja, að skoðanirnar sjeu eins margar og mennirnir. Miklu fremur er nauðsynlegt, að menn í lengstu lög reyni að sætta sig við ýmislegt og komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu.

Þó jeg hafi margsinnis gert það, þá vil jeg enn einu sinni taka fram ástæðurnar fyrir því, að jeg áleit ekki kominn tíma til þess að afnema viðskiftahöftin.

Eins og öllum er kunnugt, er gjaldeyrir landsins mjög takmarkaður, og því langt frá að hann sje handbær eftir þörfum. Til þess að bæta úr því, er í rauninni að eins einn vegur, að minka það, sem til er í landinu, og kaupin frá útlöndum. Það er því varhugavert að afnema viðskiftahöftin. Þegar öllu verður slept lausu, má búast við að sumir kaupsýslumenn gangi langt í að útvega vörur. Sumum mun þó ganga illa að fá fje til þess að greiða þær. En þá kemur annað þeim til hjálpar. Margir kaupsýslum. erlendis liggja með geysibirgðir og mundu vera fúsir á að veita gjaldfrest, til þess að losna við vörur sínar. Þegar svo þeirra tími er kominn, fara þeir til viðskiftabanka síns í útlöndum og biðja hann að innheimta kröfurnar. Viðskiftabankar þeirra snúa sjer síðan — til þeirra banka erlendis, sem standa í sambandi við bankana hjer. Síðan koma tilmæli til bankanna hjer, um að innheimta kröfurnar. Þeir eiga erfitt með að neita því; mega búast við, að það verði tekið illa upp fyrir þeim. Þeir geta kann ske lofað að innheimta, en flytja ekki út fjeð. En af því geta orðið talsverð óþægindi. Þegar útlendu bankarnir fá ekki fje sitt, má búast við að þeir snúi sjer til ríkisstjórnar í sínu landi og biðji hana að skerast í leikinn. Stjórnirnar senda svo hingað fyrirspurn um, hvernig standi á því, að þegnar þeirra fá ekki fje sitt greitt. Þá er komið að því, sem kallað er „Svindel“ á útlendu máli. Þegar svo er komið, rýrist álit og tiltrú, ekki að eins einstakra manna og banka, heldur einnig ríkisins.

Þessi gangur málsins er sá, sem menn verða að gera sjer ljósan. Þá sæu allir, að því meira sem inn er flutt af útlendum vörum, því meiri líkur fyrir því, að landið verði fjárþrota og missi lánstraust sitt. Og jeg er viss um það, að ef viðskiftahöftunum væri haldið til næstu áramóta, mundi ástandið orðið breytt til stórra bóta. En því miður eru engar horfur á því.

Jeg ætla ekki að taka aftur til máls. Vil þó að endingu beina örfáum orðum til hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Jeg verð að segja, að mjer kemur undarlega fyrir sjónir framkoma hans nú. Jeg hafði búist við henni annari. Hann gat þess nýlega, að hann teldi viðskiftahöftin tilgangslaus, vegna þess, að landsmenn myndu fara í kringum þau og flytja inn vörur óleyfilega. Jeg get ekki sjeð annað en þetta sje hreinasta vantraust á þjóðina. Jeg get alls ekki fallist á, að landslýðurinn sje svo ólöghlýðinn og spiltur, að það sje tilgangslaust að setja honum lög og reglur. — Jeg vil mótmæla slíkum ummælum harðlega, frá hverjum sem þau koma. Háttv. þm. (J. B.) sagði, að sjer væri næst skapi að greiða atkv. með því, að lögin frá 8. mars 1920 væru feld úr gildi. Jeg skal að vísu geta þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) gaf nokkuð tilefni til þess með orðum sínum. En jeg er honum alls ekki sammála um það. Jeg álít, að þau lög eigi ekki að koma til atkv. nú.

Þessi framkoma hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) verður hálfkynleg, þegar hún er borin saman við stefnuskrá þá, sem hann var kosinn upp á. Ýms ummæli hans eru í algerðu ósamræmi við þá skoðun, sem jeg álit að hann ætti að hafa samkvæmt stefnuskránni. Jeg hjelt ekki, að það væri hans skoðun, að rjett væri að útiloka öll opinber afskifti af framferði einstaklinga í landinu. Jeg hjelt einmitt, að það væri á stefnuskrá þess flokks, sem hv. þm. (J. B.) telst til, og sem studdi hann til þings, að styðja stjórnina til allra þeirra ráðstafana, sem geta leitt til almennrar farsældar, og þá ekki síst til þess að hindra skaðvænar ráðstafanir einstakra manna.