21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Magnús Jónsson:

Það, sem kom mjer til þess að taka til máls um þetta frv. við 1. umr., var það, að jeg hafði það einhvern veginn á tilfinningunni, að málið hefði ekki mætt fullri sanngirni á undanförnum þingum. Og jeg heyri það enn hjer, við þessar umræður, að menn vilja ekki taka á því enn þá með silkihönskum sanngirninnar.

Jeg trúi því ekki, að deildarmönnum ekki finnist, að ummæli kunnugra eigi hjer að hafa mest að segja.

Mjer dettur ekki í hug að neita því, að hægt sje að benda á jafnerfitt prestakall þessu. Og það hefir þegar verið bent á jafnmannmargt prestakall. En jeg vil biðja menn að benda á eitthvert það prestakall á landinu, þar sem þetta fer hvorttveggja saman, svo að jafnist við Ísafjarðarprestakall óskift.

Háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) var að benda á Reykjavík sem dæmi, að þar væri þó mannfleira prestakall. Jeg er nú líklega fult eins kunnugur starfi prestanna hjer eins og þessi háttv. þm. (P. O.), og jeg veit, að á þá er ofmikið lagt. En jeg vil spyrja háttv. frsm. að því, hvort honum mundi ekki sýnast öðruvísi, ef prestarnir hjer ættu að hafa Akranes sem annexíu. Það er annexían, sem gerir Ísafjarðarprestakall erfiðast. Reykjavík er því alls ekki hjer hliðstætt dæmi. Það mundi enginn minnast á að gera Hólssókn að sjerstöku prestakalli, ef það væri ekki nema sveitin ein, og væri það þó ekki lítil sókn. En þegar þar við bætist, að þarna er eitt af fjölmennustu kauptúnum landsins, þá sýnist það nokkuð hart að neita þeim um prestsþjónustu.

Jeg vona, að háttv. þm. kunni svo að meta skýrslur fagmanna, að þeir taki gilda skýrslu okkar prestanna um það, að ekki sje ljett störfum af herðum presta með fræðslulögunum. Okkur ætti að geta komið saman um, að ljettirinn sje enginn. Kristindómsfræðslan hvílir jafnt á prestunum eftir sem áður. Skyldan er sú sama, hversu sem hún er rækt. En enginn veit enn, hvernig þetta kann að verða í framtíðinni, þar sem nú er verið að endurskoða fræðslulögin. Um hin hollu og siðbætandi áhrif af nýjum bókum er það að segja, að ef sú menning hefir nokkuð að segja, þá held jeg, að hún geri starf prestsins erfiðara, en ekki ljettara.

Jeg er algerlega á móti frestun málsins, því jeg tel hjer vera um sanngirniskröfu að ræða.

Viðvíkjandi fríkirkjustofnun í Hólssókn er það að segja, að mjer finst slíkt vera að tala gegn sjálfum sjer, því ef slíkt verður gert, þá er kostnaðurinn í raun rjettri kominn.

Háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) benti á jafnfjölmenn prestaköll. Það er vandalaust. Hólssóknin ein er heldur ekki erfiðasta sóknin á landinu. En hún er líka annexía við eitthvert fólksflesta prestakall landsins.

Það, að presturinn skuli nú ætla að sækja burtu úr þessu prestakalli, sýnir einnig, að hjer er alvara á ferðum og farið ineð rjett mál.